Knattspyrna: Luku Lengjubikar á sigri
Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis lauk keppni í B-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu með 3-0 sigri á Augnabliki í Fjarðabyggðarhöllinni um helgina.Austfjarðaliðið komst yfir strax á tíundu mínútu með marki Ainhoa Plaza. Tvö mörk komu síðan í seinni hálfleik. Björg Gunnlaugsdóttir skoraði á 54. mínútu og Linli Tu tíu mínútum síðar.
Með sigrinum lyfti Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir sér upp úr botnsæti deildarinnar. Liðið var eitt fjögurra sem vann tvo af sjö leikjum sínum, Fjölnir náði að auki í tvö jafntefli en Grindavík og Augnablik fengu jafnmörg stig og austanliðið. Haukar enduðu á botninum. Næsta verkefni liðsins er Mjólkurbikarinn eftir tvær vikur.
Knattspyrnufélag Austfjarða (KFA), nýsameinað lið Leiknis og Fjarðabyggðar, er úr leik í bikarkeppni karla eftir 2-0 tap gegn Sindra á Höfn á laugardag. Mörkin komu eftir um klukkustundar leik.
Höttur/Huginn verður í pottinum þegar dregið verður í 32ja liða úrslit, sem leikin verða eftir mánuð. Í þeirri umferð bætast lið úr tveimur efstu deildunum við.