Knattspyrna: Mikilvægur sigur Hattar/Hugins í fallslag

Höttur/Huginn vann mikilvægan 3-0 sigur á Magna í fallslag í annarri deild karla í knattspyrnu í vikunni. BN varð annað liðið í sumar til að ná stigi af Einherja í fjórðu deildinni.

Með sigrinum á Magna jók Höttur/Huginn, sem er í tíunda sæti, forskot sitt á Reyni og Magna sem eru í fallsætunum. Höttur/Huginn hefur nú 14 stig en Reynir sjö og Magni sex.

Rafael kom Hetti/Huginn yfir á 13. mínútu en þrátt fyrir að heimaliðið væri betri aðilinn í leiknum kom annað markið ekki fyrr en á 90. mínútu. Var þar Rafael á ferðinni.

Arnór Snær Magnússon skoraði síðan þriðja markið á þriðju mínútu uppbótartíma. Þetta var hans fyrsta mark í meistaraflokki og hafði hann komið inn á á 88. mínútu. Bróðir hans, Brynjar Þorri, lagði upp markið.

KFA er stigi á undan Hetti/Huginn en liðið átti ekki góðan dag á Húsavík þar sem það tapaði 5-2 fyrir Völsungi. Miðvörðurinn Adams Ahmed fékk rautt spjald strax á 5. mínútu og tveimur mínútum síðar voru heimamenn komnir yfir. Inigo Albizuri jafnaði á 28. mínútu en Völsungur bætti við tveimur mörkum fyrir hálfleik. Vice Kendes skoraði á 70. mínútu en þá höfðu mörkum Húsvíkinga fjölgað um tvö.

Boltafélag Norðfjarðar varð annað liðið til að ná stigi af Einherja í E riðli fjórðu deildar karla þegar liðið sótti 2-2 jafntefli á Vopnafjörð. Heimamenn urðu fyrir því óláni að þurfa að skipta Helga Má Jónssyni út af strax á fyrstu mínútu.

Stefán Bjarki Cekic kom BN yfir en Miguel Angel skoraði tvö mörk fyrir Einherja áður en komið var að hálfleik. Oddur Óli Helgason jafnaði fyrir BN á 74. mínútu, nokkuð gegn gangi leiksins.

Heldur hitnaði í kolunum í uppbótartíma. Dagur Þór Hjartarson úr BN fékk fyrst sitt annað gula spjald. Síðan bættust þrjú önnur gul spjöld við auk þess sem Zhivko Dinev úr Einherja fékk rautt spjald.

Spyrnir vann Mána 4-0 á Fellavelli. Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson skoraði tvö mörk og Jónas Pétur Gunnlaugsson eitt en síðasta markið var sjálfsmark Hornfirðinga.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tapaði 4-1 fyrir toppliði FH í Lengjudeild kvenna. Hafnfirðingar komust yfir strax á þriðju mínútu en Linli Tu jafnaði á 6. mínútu. Heimakonur komust aftur yfir tíu mínútum síðar og skoruðu þriðja markið á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Þær bættu svo einu marki við í þeim seinni.

Einherji tapaði 0-3 fyrir Völsungi í annarri deild kvenna á Vopnafirði í gærkvöldi. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar