Körfubolti: Ekki tókst að vinna Hauka

Höttur tapaði sínum síðasta leik í fyrstu deild karla í körfuknattleik gegn Haukum í Hafnarfirði á föstudag. Haukar eru eina liðið sem Hetti tókst ekki að vinna í vetur.

Höttur fór heldur betur af stað í leiknum en úrslitin ráðast ekki í fyrsta leikhluta, nema munurinn verði þeim mun meiri. Það var hann aldrei en Haukar voru með 19-17 forskot eftir hann.

Þegar skammt var liðið af öðrum leikhluta breyttist staðan úr 21-21 í 30-21. Þar með voru Haukar komnir með undirtökin og leiddu í hálfleik 49-36, eftir að hafa skorað tvær þriggja stiga körfur á lokamínútunni.

Haukar voru komnir í 59-44 í þriðja leikhluta þegar Höttur tók sig til og jafnaði með að skora 15 stig í röð. Áfram voru Haukar þó á undan og voru 69-63 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Hafnafjarðarliðið var komið með tíu stiga forskot, 78-68 eftir þriggja mínútna leik í fjórða leikhluta. Höttur minnkaði muninn en komst aldrei verulega nálægt og lokatölurnar því 86-82. David Guardia var stigahæstur hjá Hetti með 19 stig en Tim Guers skoraði 17.

Haukar fara beint upp í úrvalsdeild sem deildarmeistarar. Liðið tapaði aðeins tveimur leikjum. Höttur er í öðru sæti, tapaði fimm leikjum, þar af öllum þremur leikjunum gegn Haukum. Sætið veitir þó heimaleikjarétt í úrslitakeppninni þar sem fjögur lið keppa um annað laust sæti í úrvalsdeild. Höttur mætir Fjölni í undanúrslitum og verður fyrsti leikur þeirra á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Það lið sem hefur betur mætir annað hvort Sindra eða Álftanesi í einvígi um úrvalsdeildarsætið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.