Körfubolti: Fá svör við frábærum varnarleik Vals

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari karlaliðs Hattar, segir það hafa verið vonbrigði að eiga ekki betri dag þegar liðið tapaði 47-74 fyrir Val í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Þegar á hólminn hafi verið komið hafi hvorki þjálfara né leikmenn átt svör við frábærri vörn Vals.

„Mér fannst kannski ekki vera 27 stiga munur á liðunum en það var klárlega mikill munur á liðunum. Það voru vonbrigði að eiga ekki betri frammistöðu. Sóknarleikurinn okkar var vondur, kraftlaus og hægur. Hvað það var, spennustigið, aðstæður eða varnarleikur, sem var frábær og við áttum ofboðslega fá svör við. Þetta getur allt spilað saman,“ sagði Viðar Örn í samtali við Austurfrétt eftir komuna austur í dag.

Sérfræðingar RÚV á leiknum gagnrýndu Viðar og meðþjálfara hana, Einar Árna Jóhannsson, fyrir að eiga ekki fleiri lausnir í sókninni. „Sú gagnrýni er mjög réttmæt. Uppleggið sóknarlega, bæði fyrir leik og í leiknum, frá okkur þjálfurunum fær falleinkunn. Það sem við ætluðum að gera varð erfitt, við vorum oft fljótir út úr aðgerðum og Valur náði alltaf að þrýsta okkur sömu leiðina. Leikmenn spiluðu varnarleikinn vel en við gátum ekki keypt okkur körfu.“

Þá áttu helstu þeir leikmenn Hattar, sem oftast bera uppi stigaskorið, ekki sinn dag. Tim Guers skoraði 5 stig, hitti úr einni af 13 tilraunum í opnum leik, Matej Karlovic skoraði þrjú stig, eina körfu í átta skotum og miðherjinn Nemanja Knezevic komst ekki á blað. David Guardia komst einn yfir 10 stig, skoraði 16.

Rothögg í lok þriðja leikhluta

Þrátt fyrir þetta hélt Höttur muninum í kringum tíu stig fram, sem telst viðráðanlegur munur í körfuknattleik, þar til komið var fram í lok þriðja leikhluta. Valsmenn settu þá niður þrjár þriggja stiga körfur í röð og breytti stöðunni úr 32-39 í 32-48. Það var í raun rothöggið. „Það eru í raun ótrúlegt miðað við okkar frammistöðu sóknarlega að við höfum verið í sjéns í um 30 mínútur.“

Greina má svipað mynstur í leik Hattar gegn Val og í deildarleik gegn Haukum fyrir viku. Í bæði skipti lenti liðið langt undir strax í byrjun og sóknarleikurinn var hnoð. „Þetta veldur kannski ekki áhyggjum en er klárlega verkefni til að leysa. Það er okkar Einars að gera það með leikmönnum á næstu dögum og vikum.“


Opið er fyrir leikmannaskipti í þessum mánuði. Aðspurður kveðst Viðar Örn ekki reikna með að Höttur geri breytingar á sínum hópi. „Nei, ég geri ekki ráð fyrir því. Við þurfum að kreista það út úr þessum leikmannahópi sem við náðum að gera fyrr í vetur.“

Þakklátur stuðningsfólkinu

Eftir gærkvöldið er ljósti punkturinn hins vegar mikill stuðningur við Hött í leiknum, fjölmargir Austfirðingar gerðu sér ferð suður til að styðja Hött auk þess sem brottfluttir fjölmenntu. „Það jákvæða er félagið sem heild, stuðningurinn og fólkið sem fylkti sér að baki liðinu og bjó til stemmingu. Það var algjörlega til fyrirmyndar og við erum svakalega þakklát. Stuðningurinn var geggjaður, algjörlega til fyrirmyndar. En það eru mikil vonbrigði hjá okkur í liðinu að geta ekki betur þegar á hólminn var komið.“

Mynd: Morgunblaðið/Eggert

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.