Körfubolti: Fjórum sinnum sjö í tapi í Keflavík

Höttur tapaði í gærkvöldi sínum fjórða leik í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið heimsótti Keflavík í leik sterkra varna.

Höttur byrjaði leikinn vel, var yfir eftir fyrsta leikhluta, 8-19. Keflvíkingar svöruðu fyrir sig í byrjun annars leikhluta, skoruðu fyrst sjö stig í röð til að breyta stöðunni úr 15-25 í 22-25 og síðan önnur sjö til að snúa henni úr 22-27 í 29-27 fyrir leikhlé.

Keflvíkingar héldu síðan áfram og skoruðu fyrstu sjö stigin í þriðja leikhluta. Því liðu alls tæpar sjö mínútur af leiktímanum (6:25 til að gæta nákvæmni) án þess að Höttur skoraði. Í lok þriðja leikhluta var Keflavík yfir 49-43. Heimamenn héldu Egilsstaðabúunum síðan í hæfilegri fjarlægð út leikinn og unnu 71-62.

Eins og stigaskorið ber með sér var þetta leikur hinna sterku varna. Ekki er óalgengt að tölur eins og eftir þriðja leikhluta sé staðan í hálfleik.

Nemanja Knezevic var stigahæstur hjá Hetti með 13 stig en Tim Guers skoraði 12. Guers hitti óvenju hilla, nýtti aðeins 1/7 tveggja stiga skotum sínum eða 14% en gekk heldur betur utan þriggja stiga línunnar þar sem hann setti niður 3/8. Af tölfræði liðanna má nefna að Keflavík tók 50 fráköst gegn 35, þar af 13-5 í sóknarfráköstum.

Þrátt fyrir slakt gengi í síðustu leikjum er Höttur enn í 9. sæti deildarinnar. Liðið spilar næst á mánudagskvöld í átta liða úrslitum bikarkeppninnar gegn KR.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.