Körfubolti: Fjórum sinnum sjö í tapi í Keflavík
Höttur tapaði í gærkvöldi sínum fjórða leik í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið heimsótti Keflavík í leik sterkra varna.Höttur byrjaði leikinn vel, var yfir eftir fyrsta leikhluta, 8-19. Keflvíkingar svöruðu fyrir sig í byrjun annars leikhluta, skoruðu fyrst sjö stig í röð til að breyta stöðunni úr 15-25 í 22-25 og síðan önnur sjö til að snúa henni úr 22-27 í 29-27 fyrir leikhlé.
Keflvíkingar héldu síðan áfram og skoruðu fyrstu sjö stigin í þriðja leikhluta. Því liðu alls tæpar sjö mínútur af leiktímanum (6:25 til að gæta nákvæmni) án þess að Höttur skoraði. Í lok þriðja leikhluta var Keflavík yfir 49-43. Heimamenn héldu Egilsstaðabúunum síðan í hæfilegri fjarlægð út leikinn og unnu 71-62.
Eins og stigaskorið ber með sér var þetta leikur hinna sterku varna. Ekki er óalgengt að tölur eins og eftir þriðja leikhluta sé staðan í hálfleik.
Nemanja Knezevic var stigahæstur hjá Hetti með 13 stig en Tim Guers skoraði 12. Guers hitti óvenju hilla, nýtti aðeins 1/7 tveggja stiga skotum sínum eða 14% en gekk heldur betur utan þriggja stiga línunnar þar sem hann setti niður 3/8. Af tölfræði liðanna má nefna að Keflavík tók 50 fráköst gegn 35, þar af 13-5 í sóknarfráköstum.
Þrátt fyrir slakt gengi í síðustu leikjum er Höttur enn í 9. sæti deildarinnar. Liðið spilar næst á mánudagskvöld í átta liða úrslitum bikarkeppninnar gegn KR.
Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson