Körfubolti: Höttur dróst gegn Val í undanúrslitunum

Höttur mætir Val í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik, en dregið var í hádeginu. Þjálfari Hattar segir það undir liðinu komið að sýna af sér hörku til að komast áfram.

„Það var sama á móti hverjum við hefðum dregist, við komum alltaf inn í undanúrslitin sem litla liðið. Nú er það undir okkur komið að halda partýinu gangandi,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, um dráttinn.

„Okkur líst ágætlega á Val. Við erum með fleiri Jökuldælinga en þeir, það er klárt. Þótt það sé kannski ekki lykilatriði þá gæti það talið,“ bætir hann við.

Höttur tryggði sér sæti í undanúrslitunum í fyrsta sinn í sögu félagsins með að vinna KR fyrir viku. Mikil eftirvænting er í herbúðum félagsins og víðar. Icelandair hefur þegar sett upp tilboð fyrir stuðningsfólk sem vill fylgja liðinu suður en undanúrslitin verða leikin 11. janúar og úrslitin 14. janúar.

Viðar fór ásamt leikmanni suður til Reykjavíkur í gær enda þess óskað að fulltrúar liðanna væru viðstaddir bikardráttinn og gætu veitt fjölmiðlum viðtöl. „Því miður komumst við suður því við komumst ekki heim aftur. Við leggjum þetta á okkur því við erum harðari en hinir.“

Höttur á framundan tvo deildarleiki, gegn ÍR milli jóla og nýárs og gegn Haukum í upphafi nýs árs áður en kemur að bikarvikunni. Valur er ríkjandi Íslandsmeistari en aðeins rétt hafði sigur á Hetti þegar liðin mættust á Hlíðarenda nýverið.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.