Körfubolti: Höttur einn á toppnum

Lið Hattar er orðið eitt í efsta sæti fyrstu deildar karla í körfuknattleik. Liðið þurfti að hafa fyrir sigrum á Sindra og Skallagrími um helgina.

Hornfirðingar hafa á síðustu árum búið til gott körfuboltalið sem farið hefur vel af stað í haust og deildi efsta sætinu með Hetti og Haukum þegar Egilsstaðaliðið mætti á Höfn á föstudagskvöld.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 22-22. Sindri náði yfirhöndinni í leiknum um miðjan annan leikhluta þegar liðið breytti stöðunni úr 29-30 í 39-32. Munurinn hálfleik var 40-35.

Sindri átti annað sprett undir miðjan þriðja leikhluta, breytti þá stöðunni úr 51-47 í 60-47. Hetti tók að krafsa sig til baka og minnka muninn í 65-63. Liðið fékk síðan tvo skotfæri til að jafna í síðustu sókn leikhlutans en tókst ekki.

Eftir tvær og hálfa mínútu í fjórða leikhluta var Sindri yfir 76-70. Næst tvær mínútur setti Höttur niður átta stig gegn engu og komst yfir. Þegar 1:20 mín var eftir var staðan jöfn, 89-89. Bæði lið fengu fjölda skotfæra þann tíma sem eftir var en skoruðu ekki.

Höttur tók frumkvæðið strax í framlengingunni og vann 96-100. Tim Guers var stigahæstur í liðinu með 25 stig. Hann tók að auki tólf fráköst.

Í gærkvöldi tók Höttur á móti Skallagrími í frestuðum leik. Borgarnesliðið hefur verið í basli, aðeins unnið einn leik og fyrir um mánuði var haldinn neyðarfundur um fjárhagsstöðu körfuknattleiksdeildarinnar.

Höttur hafði nokkuð örugg tök á leiknum, var yfir eftir fyrsta leikhluta 22-18 og 46-34 í hálfleik. Mestur varð munurinn 20 stig snemma í þriðja leikhluta. Í lok hans var munurinn kominn niður í 67-62, enda nýtti heimaliðið tækifærið til að hvíla lykilleikmenn.

Borgnesingar voru aldrei fjærri í fjórða leikhluta en Höttur alltaf einn eða tveimur sóknum framar og vann að lokum 92-87. Arturo Fernandez var stigahæstur með 25 stig. Þá hirti Juan Luis 18 fráköst auk þess að skora 13 stig.

Höttur er eina liðið án taps í deildinni, hefur unnið alla leiki sína sjö. Haukar og Sindri fylgja síðan á eftir. Framundan er annar toppslagur fyrir Hött því liðið leikur næst gegn Haukum í Hafnarfirði þann 19. nóvember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.