Körfubolti: Höttur einum sigri frá úrvalsdeildinni

Lið Hattar í körfuknattleik getur tryggt sér sæti í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð ef liðið vinnur Álftanes á föstudag. Höttur hafði betur í öðrum leik liðanna um laust sæti í úrvalsdeildinni á Álftanesi í gærkvöldi.

Leikurinn í gærkvöldi var í járnum fram í fjórða leikhluta en góður kafli Hattar í upphafi hans lagði grunninn að sigrinum.

Höttur var yfir 2-8 í fyrsta leikhluta en þá skoraði Álftanes níu stig í röð og komst 11-8 yfir. Í lok leikhlutans var staðan 22-21.

Í öðrum leikhluta hafði Höttur 1-2 sóknir í forskot þar til staðan var 44-47 að heimaliðið setti niður fjögur stig í röð og komst yfir 48-47 þegar hálf mínúta var eftir. Höttur átti síðustu sóknina, fyrsta skotið geigaði en liðið náði frákastinu þannig það gat haldið áfram.

Á lokasekúndunni var brotið á Matej Karlovic í þriggja stiga skoti. Hann setti öll vítin niður þannig Höttur fór með 48-50 forskot inn í hálfleik.

Þriðji leikhluti varð enn jafnari en fyrstu tveir, þar skoruðu liðin 20 stig hvort þannig Höttur hélt áfram tveggja stiga forskoti, 68-70.

Eftir tvær mínútur í fjórða leikhluta var Álftanes yfir 76-72 en Höttur skoraði þá níu stig í röð og komst í 76-81. Álftanes náði ekki að vinna úr þeirri stöðu, þvert á móti gliðnaði bilið frekar og Höttur vann 85-94.

Tim Guers var stigahæstur hjá Hetti með 24 stig og 10 fráköst. Juan Luis tók líka 10 fráköst auk þess að skora 14 stig. Arturo Fernandez skoraði jafnmörg sig en David Guardia stigi minna.

Fráköstin var eitt af því sem breyttist úr fyrsta leik liðanna á laugardag. Höttur vann hann en Álftanes hirti mun fleiri fráköst. Í gær tók Hattarliðið 44 fráköst á móti 36, þar af 15 sóknarfráköst gegn sjö. Eins munaði um að varamenn Hattar skoruðu 24 stig en Álftaness fimm.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer upp í úrvalsdeild. Það þýðir að Höttur getur tryggt sér úrvalsdeildarsætið þegar liðin mætast í þriðja skiptið á Egilsstöðum á föstudagskvöld klukkan 19:15.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.