Körfubolti: Höttur fékk sigurkörfu í andlitið tveimur sekúndum fyrir leikslok

Möguleikar Hattar á að komast í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfuknattleik minnkuðu heldur á laugardagskvöld þegar liðið tapaði 87-86 fyrir Grindavík á útivelli. Höttur var yfir þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum.

Grindavík byrjaði leikinn mun betur, var yfir 25-14 eftir fyrsta leikhluta. Heimaliðið náði 20 stiga forskoti, 36-16 um miðjan annan leikhluta, sem var mesti munur leiksins. Í hálfleik var staðan 44-30.

Höttur átti mjög góðan þriðja leikhluta. Það voru engar kúvendingar heldur saxaði liðið smám saman á forskot Grindvíkinga þannig að staðan var 62-58 fyrir lokaprettinn.

Höttur skoraði fyrstu fjögur stigin og komst yfir 62-64. Þá var heldur farið að hitna í kolunum, í sömu andrá skiptu liðin með sér samtals fjórum tæknivillum og óíþróttamannslegum villum í nánast sömu andrá.

Höttur hélt áfram að bæta í forustuna og komst í 64-73 og var áfram yfir 70-79. Þegar 20 sekúndur voru eftir hafði Höttur 82-86 forskot. Grindvíkingar jöfnuðu þá með tveimur vítaskotum.

Höttur hefði tæknilega séð getað haldið boltanum út leiktímann en missti hann þegar sjö sekúndur voru eftir. Grindvíkingar settu upp snöggt skot og settu niður þriggja stiga körfu þegar tvær sekúndur voru eftir. Höttur náði skoti í lokin sem geigaði.

Höttur er þar með orðinn einn í tíunda sæti deildarinnar með 14 stig. Úrslit annarra leikja gerðu það að verkum en ekki er langt í næstu lið, þrjú lið eru jöfn með 16 stig. KR er fallið en gerði Hetti greiða um helgina með að vinna ÍR, sem er í 11. sæti, með 10 stig.

Höttur tekur á móti Keflavík á fimmtudagskvöld en leikur svo þýðingarmikla leiki við Breiðablik og loks ÍR.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.