Körfubolti: Höttur kældi heita Blika

Höttur vann í gærkvöldi sinn fjórða sigur í úrvalsdeild karla á leiktíðinni þegar liðið skellti Breiðabliki 91-69 á Egilsstöðum í gærkvöldi. Vendipunktur leiksins var í öðrum leikhluta.

Blikar hafa komið á óvart í byrjun móts og fyrir viðureignina í gær unnið sjö af fyrstu níu leikjunum. Mögulega hafði -13 stiga gaddurinn á Egilsstöðum áhrif á hið sjóðheita Kópavogslið því það tók ekki að hitna fyrr en eftir leikhlé.

Fyrsta skref Hattar í átt að sigri voru sex stig í röð í fyrsta leikhluta sem breyttu stöðunni úr 4-5 í 10-5. Heimaliðið leiddi síðan 24-18 eftir fyrsta leikhluta.

Það var hins vegar annar leikhluti sem skildi af alvöru milli liðanna, Höttur skoraði þar 23 stig gegn 8, þar af skoraði Breiðablik ekki stig síðustu fimm mínútur leikhlutans sem varð til þess að Höttur fór með meira en 20 stiga forskot inn í hálfleik, 47-26.

Leikurinn jafnaðist ögn í seinni hálfleik, Breiðablik minnkaði til að mynda muninn aðeins í þriðja leikhluta, þó aðeins um tvö stig niður í 65-46. Fjallið var því orðið hátt að klífa þegar kom fram í fjórða leikhluta þar sem Höttur jók á ný forustuna aðeins.

Tim Guers var stigahæstur með 21 og tók að auki 16 fráköst. Stigaskorið dreifðist vel hjá Hetti því á eftir honum komu Matej Karlovic og Adam Eiður Ásgeirsson með 18 stig og síðan David Guardia með 17.

Staða liðsins breyttist lítið í deildinni, liðið er nú í 7. – 9. sæti með átta stig en var áður í 9. – 10. sæti. Höttur leikur milli jóla og nýárs útileik við ÍR sem er í 10. sæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.