Körfubolti: Höttur kominn með fjögurra stiga forskot
Höttur er kominn með fjögurra stiga forskot á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik eftir sigur á Fjölni í gærkvöldi og Hrunamönnum á föstudagskvöld.Höttur hitti trúlega á einn sinn allra besta leik á tímabilinu í fyrri hálfleik í Dalhúsum í gær, en Fjölnisliðið var í fjórða sæti deildarinnar fyrir kvöldið.
Höttur var strax komið í 16-30 forustu eftir fyrsta leikhluta og í 37-59 í hálfleik. Munurinn hélst í 20 stigum í þriðja leikhluta en að honum loknum var staðan 65-85. Góð forusta þýddi að Höttur gat gefið yngri leikmönnum tækifæri undir lokin, en leikurinn vannst 90-107.
Tim Guers var stigahæstur hjá Hetti með 27 stig auk þess að taka 12 fráköst. David Guardia skoraði 24 stig og tók 13 fráköst, Arturo Fernandez setti niður 23 stig og Adam Eiður Ásgeirsson 17. Þá hirti Juan Luis 17 fráköst auk þess að skora sex stig.
Á föstudagskvöld vann Höttur Hrunamenn á Egilsstöðum, 111-86. Aðeins munaði einu stigi á liðunum eftir fyrsta leikhluta en eftir hann jókst forskot Hattar jafnt og þétt.
Þar varð Guers einnig stigahæstur, skoraði 20 stig en Sigmar Hákonarson næstur með 16. David Guardia var öflugur undir körfunni og hirti alls 14 fráköst.
Höttur er efstur í deildinni með 32 stig úr 19 leikjum. Haukar eru með 28 stig en eiga orðið þrjá leiki til góða. Þeir geta komist framúr með að vinna þá, auk þess sem innbyrðis viðureignir eru þeim í hag.