Körfubolti: Höttur upp í úrvalsdeild eftir stórsigur - Myndir
Höttur tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir tæplega 30 sigur á Álftanes í þriðja leik liðanna í umspili um laust sæti. Höttur yfirspilaði gestina frá fyrstu mínútu.Eftir að hafa unnið tvo fyrstu leikina lá það í augum uppi að Höttur gæti klárað verkefnið með sigri í kvöld. Leikmenn liðsins sýndu frá fyrstu mínútu að þeir væru ákveðnir í að standa við það frammi fyrir troðfullu íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Reyndar var aðsóknin þannig að margir áhorfendur komust ekki inn fyrr en um miðjan fyrsta leikhluta.
Þá var þegar farið að draga í sundur með liðunum. Hattarliðið var sneggra í alla lausa bolta, til dæmis fráköst og keyrði upp hraðann í sóknarleiknum. Í stöðunni 18-12 reyndi Matija Jokic erfitt skot sem fór ekki ofan í. Hann byrjaði hins vegar strax að pressa í vörninni, stal boltanum, keyrði að körfunni og sótti villu.
Úr innkastinu gekk boltinn hratt milli leikmanna Hattar, sem horfðu í eina áttina en sendu í hina, svo úr varð hálfgerð sirkussókn sem lauk með körfu. Þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 23-12.
Höttur hélt áfram að keyra á miklum hraða á Álftanes í byrjun annars leikhluta. Varnarleikur gestanna var haldlítill, Hattarmenn fundu ýmist pláss á bakvið vörnina eða úti við þriggja stiga línuna og voru eftir tveggja mínútna leik komnir í 30-15.
Þegar á leið leikhlutann lagaðist varnarleikur Álftaness til muna, varð munn aðgangsharðari og það pláss og tími sem Hattarliðið hafði áður minnkaði. Álftanesi gekk reyndar lítið betur í sóknarleiknum, mistökunum – sem voru þó nokkur í byrjun – fækkaði en skotin voru áfram erfið eða hreinlega duttu ekki. Höttur var því 40-28 yfir í hálfleik.
Þriðji leikhluti spilaðist á svipaðan hátt, Álftanes náði að halda hraðanum í sókn Hattar niðri. Undir lokin fóru skot gestanna að detta og það dugði þeim til að tolla inni í leiknum en fyrir síðasta leikhlutann var munurinn tíu stig, 63-53.
Tvær þriggja stiga körfur frá Matej Karlovic og Tim Guers gáfu tóninn snemma í fjórða leikhluta. Aftur náði Höttur að keyra upp hraða og sérstaklega Karlovic raðaði niður þriggja stiga körfum en meira að segja Juan Luis setti eina. Á sama tíma þvarr baráttuþrek Álftaness og Höttur innsiglaði 99-70 sigur og sæti í úrvalsdeild næsta vetur.
Stigaskorið í kvöld dreifðist nokkuð í Hattarliðinu. David Guardia og Karlovic setti flest, 21 hvor auk þess sem Karlovic stal sjö boltum. Arturo Ferndandez skoraði 19 stig og Tim Guers 18 auk þess að hirða 11 fráköst.