Körfubolti: Leikurinn gegn toppliðinu tapaðist í þriðja leikhluta
Erfiður þriðji leikhluti varð Hetti að falli þegar liðið tapaði 81-90 fyrir Íslandsmeisturum Vals í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðin mættust á Egilsstöðum á sunnudagskvöld.Leikurinn var jafn og fjörugur í fyrri hálfleik. Eftir fyrsta leikhluta var Valur 21-24 yfir og síðan 37-43 í hálfleik.
Tvær og hálfar mínútur án stiga snemma í þriðja leikhluta urðu Hetti dýrkeyptar. Á þeim tíma breytti Valur stöðunni úr 46-47 í 46-59. Valur bætti við það forskot seinni hluta þriðja leikhluta og var yfir 57-75 honum lauk.
Valur byrjaði fjórða leikhluta á þriggja stiga körfu og var þar með kominn í 57-78, 21 stigs forustu sem var mesta forskot leiksins. Eftir þetta saxaði Höttur jafnt og þétt á muninn, án þess þó að hleypa verulegri spennu í leikinn og því hélt Valur suður með níu stiga sigur. Tim Guers var stigahæstur hjá Hetti með 16 stig en Obi Trotter skoraði 14.
Hver er staða Hattar?
Valur er efsta lið deildarinnar en Höttur í 9. sæti með 14 stig, líkt og Stjarnan en stendur betur í innbyrðisviðureignum liðanna. Fjögur stig eru niður í ÍR sem er í fallsæti en tvö stig upp í Breiðablik, Grindavík og Þór Þorlákshöfn sem eru í 6. – 8. sæti og þar með úrslitakeppnisætum.
Átján umferðir af 22 í deildinni eru nú búnar og framundan mikilvægir leikir hjá Hetti sem byrja í Grindavík næsta föstudag. Síðan kemur heimaleikur gegn Keflavík, útileikur gegn Breiðabliki og loks heimaleikur gegn ÍR 30. mars. Gangi allt að óskum tekur þá við úrslitakeppni en í versta falli fall um deild.
Mynd: Morgunblaðið/Eggert