Körfubolti: Naumt tap fyrir Stjörnunni í framlengingu
Stjarnan batt í gærkvöldi enda á þriggja leikja sigurgöngu Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með 89-92 í framlengdum leik á Egilsstöðum. Hattarliðið sýndi ótrúlega hörku með að knýja fram framlengingu sem kallaði fram jákvæðari viðbrögð hjá þjálfara þess en við flestum tapleikjum.Stjarnan var aðeins tveimur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 20-22 en það var í öðrum leikhluta sem dró í sundur með liðunum. Gestirnir höfðu hótað fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrsta leikhluta en það var í öðrum leikhluta sem þeir fóru að hitta af alvöru. Á sama tíma spiluðu þeir hörkuvörn og ýttu Hetti út í erfið skot. Að honum loknum var staðan 33-47.
Sá munur hélst út í gegnum þriðja leikhluta, eftir hann var Stjarnan áfram yfir, 53-67. Höttur átti samt eftir orku í eitt lokaáhlaup. Heimamenn náðu að koma muninum undir tíu stig og náðu slíkri sveiflu á lokamínútunni þegar þeir skoruðu átta stig gegn engum.
Það byrjaði með því að Kristján Fannar Ingólfsson, leikmaður Stjörnunnar, fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að fara aftan í Obie Trotter sem var að bera boltann upp eftir innkast. Hattarmenn nýttu það til hins ýtrasta, settu niður bæði vítin og svo þriggja stiga skot. Þeir fengu svo eina sókn í viðbót og Obie setti niður þriggja stiga körfu. Stjarnan átti síðustu sóknina en nýtti hana ekki.
Obie var áfram heitur framan í framlengingu en enn varð vendipunktur í kringum hann í stöðunni 88-83 þegar dæmd var á hann fimmta villan. Þar með losnaði um Robert Turner sem byrjaði á að jafna í 88-88 og setti síðan niður þriggja stiga körfu úr þröngri stöðu til að koma Stjörnunni í 89-92. Það reyndist síðasta karfa leiksins.
Hjá Hetti endaði Tim Guers með 25 stig, þótt hann skoraði ekkert í síðasta leikhlutanum. Næstur var Nemanja Knezevic með 21 stig, þar af 11 í fjórða leikhluta.
Geggjaður karakter í fjórða leikhluta
„Við vorum flatir og óeinbeittir til að byrja með auk þess sem Stjarnan refsaði fyrir það sem við þjálfararnir ætluðum að reyna lifa með. Við spiluðum góða vörn á móti Turner en þurftum að gefa annað eftir.
Ég var ósáttur við bæði sjálfan mig og leikmennina í hálfleik. Við skerptum á ákveðnum hlutum í hálfleik en þeir stóðu okkur vel af sér í þriðja leikhluta. Ég hafði ekki trú á að jólin kæmu snemma, það er enn bara 21. nóvember, því þeir héldu áfram að raða niður skotum.
Við sýndum geggjaðan karakter í fjórða leikhluta. Við fórum eins langt og við gátum eftir að hafa komið okkur ofan í djúpa holu en við vorum líka að spila á móti liði með góða reynslu í svona stöðu. Það fór mikil orka í það,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn.
Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson