Körfubolti: Sérstakt að spila gegn sínum bestu vinum

Það fór ekki svo að Egilsstaðabúar eignuðust ekki bikarmeistara í körfuknattleik þótt Höttur féll úr leik í undanúrslitum gegn Val. Í liði mótherjanna var fyrrverandi fyrirliði Hattar, Brynjar Snær Grétarsson og hann gat leyft sér að fagna þegar Valur vann Stjörnuna í úrslitaleiknum um helgina.

„Leikurinn var stressandi á köflum en stemmingin var góð og allir hvað þyrfti að gera til að vinna. Þetta var þrususkemmtilegur leikur þar sem allir vissu hvað þyrfti að gera til að vinna,“ segir Brynjar Snær.

Hann kom reyndar ekki inn á í leiknum en var þó í leikmannahópnum á bekknum. „Þetta var ógeðslega gaman frá fyrstu mínútu. Þótt ég hefði ekki áhrif inni á vellinum þá er körfubolti liðsíþrótt.“

Það var líka stolt undir því náfrændi hans, Vignir Freyr Magnússon, er í þjálfarateymi Stjörnunnar. „Þetta var stórslagur Uppsalamanna en ég segi að Jökuldælingurinn hafi haft betur að þessu sinni.“

Gaman frá fyrstu æfingu hjá Val

Brynjar Snær er uppalinn Egilsstaðabúi og hafði þar til í sumar aldrei spilað körfubolta með öðru félagi en Hetti. Hann skipti yfir í Val þegar hann flutti suður til að læra rafvirkjun.

„Ég fór í allt annað hlutverk hér. Ég hafði verið fyrirliði hjá Hetti og spilað mikilvægt hlutverk í liðinu en hér var ég í minna hlutverki, bæði innan vallar og utan. Ég hélt ég yrði bara peð í augum Íslandsmeistaranna þegar ég kom til þeirra í sumar en mér var strax tekið opnum örmum og þetta hefur verið mjög gaman frá fyrstu æfingu.“

Brynjar Snær spilar sem bakvörður og hefur gjarnan glatt Hattarfólk með þriggja stiga skotum sínum. Tölfræði hans benda til að þau gangi svo vel að hann fari helst ekki inn í teiginn til að skjóta. „Ég var alltaf að grínast með það á fyrstu æfingunum hjá Val að ég færi inn á og myndi hitta úr horninu. Síðan kom að því að ég fór í fyrsta sinn inn á í leik og þá fékk ég boltann strax niður í horninu og setti skotið niður. Bekkurinn sprakk úr hlátri og ég hljóp hlægjandi framhjá þeim til baka.

Það er sagt að maður verði að þekkja sína styrkleika – og svo ég hef alltaf minnt á að maður fái fleiri stig úr skotum utan þriggja stiga línunnar en innan hennar.“

Magnað að sjá hvítu búningana

Brynjar Snær spilaði lokamínútuna þegar Valur vann Hött í undanúrslitum keppninnar síðasta miðvikudag. Hann skoraði reyndar ekki körfu sem gilti – en var kominn í loftið um það leiti sem lokaflautið gall og smellti boltanum ofan í nánast frá miðju.

„Aðstoðarþjálfarinn sagði mér að koma inn á og kasta boltanum ef ég fengi boltann. Mér fannst óþarfi að dæma körfuna af. Þegar ég heilsaði dómaranum í úrslitaleiknum sagði hann mér að hann hefði talið hana með ef hann hefði verið með undanúrslitin.“

Brynjar segir þó að það hafi verið sérstakt að spila á móti Hetti í undanúrslitunum. „Það var óþægilegt að vissu leyti. Höttur var með sturlaða stemmingu á áhorfendapöllunum. Í upphituninni stóð ég og horfði yfir áhorfendurna og hugsaði hvað það væri magnað að sjá alla þessa hvítu búninga. Mér fannst líka sérstakt að spila gegn frændum mínum og mönnum sem hafa verið mínu bestu vinir undanfarin fimm ár.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.