Körfubolti: Stúkan hvít en stigaskorið rautt

Höttur er úr leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 47-74 tap fyrir Val í undanúrslitum keppninnar í Laugardalshöll í kvöld. Stuðningsfólk Hattar setti vel svip sinn á leikinn.

Valsliðið er núverandi Íslandsmeistari en Höttur nýliðar í úrvalsdeildinni. Með þessum leik var skrifaður nýr kafli í sögu félagsins þar sem liðið hafði ekki áður komist í undanúrslit bikarkeppninnar. Þrátt fyrir að mæta Íslandsmeisturunum var austanliðið bjartsýnt enda hafði Valur naumlega unnið deildarleik liðanna í haust, 82-79.

Stuðningsmenn Hattar fylltu höllina af látum strax í upphitun og þrátt fyrir að vera mun lengra frá heimavelli sínum en Valsmenn var stúkan máluð hvít.

Valur byrjaði leikinn betur og leiddi 1-14. Valsmenn voru með sterka vörn sem liðsmenn Hattar áttu erfitt með að komast í gegn. Eftir leikhlé og nokkrar skiptingar tókst Hattarmönnum að stíga upp og koma sér í stöðuna 10-17. Þrátt fyrir það voru Valsmenn skrefi á undan þegar fyrsta leikhluta lauk 15-20.

Stuðningsmenn Hattar mættu vel undirbúnir með flautur, lúðra, trommusveit og sérstakt bikarlag. Það var raunar svo að fögnuðurinn bar stuðningsandann ofurliði en í upphafi annars leikhluta var biðlað til stuðningsmanna Hattar að hætta að kasta þristum, já súkkulaðistykkjunum, yfir í stúku Valsmanna. Eins og segir í bikarlagi Hattar rigndi þristum yfir stúkuna þegar Höttur skoraði þriggja stiga körfur.

Höttur byrjaði annan leikhlutann betur og gekk vel að hitta utan þriggja stiga línunnar. Hins vegar áttu þeir í miklum vandræðum með góðan varnarleik Vals. Þegar kom að hálfleik var staðan 24-35 Val í vil.

Eftir hálfleik var mikil barátta í Hetti en Valsmenn héldu sínu striki og í stöðunni 32-45 eftir tvær þriggja stiga körfur í röð frá Val tók Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, leikhlé. Þegar fjórði leikhlutinn hófst var Höttur fjórtán stigum undir og áttu lítið af svörum við varnarleik Vals.

Sóknarleikur beggja liða var ekki upp á marga fiska og sóknarnýtingin léleg, hins vegar gáfu Valsmenn í undir lok leiksins og náðu 23 stiga forskoti. Þrátt fyrir það gáfu stuðningsmenn Hattar ekki upp vonina og héldu sínu striki. Bæði lið gerðu margar skiptingar undir lok leiksins og flestir leikmenn beggja liða komu við sögu í leiknum. Staðan í lok leiks var 47-74 og bikarævintýri Hattar þar með lokið.

Stigahæsti leikmaðurinn leiksins var Kári Jóns úr Val með 20 stig og hjá Hetti var það David Guardia með 16 stig.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.