Körfubolti: Vonast til að nýr leikmaður verði gjaldgengur í næsta leik

Bryan Alberts, 28 ára skotbakvörður, mætti á sína fyrstu æfingu með úrvalsdeildarliði Hattar í körfuknattleik karla í gærkvöldi. Vonast er til að leikheimild verði gefin út fyrir hann síðar í dag þannig hann geti spilað með liðinu í næsta leik gegn Þór Þorlákshöfn.

„Við vonumst til að hann þétti raðir okkar og létti aðeins á bakvörðunum okkar sem spilað hafa mjög mikið í vetur,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Alberts er ekki ókunnugur Egilsstöðum, hafandi spilað með liðinu seinni hluta leiktíðarinnar 2020-21 þegar liðið var einnig í úrvalsdeildinni. Þá skoraði hann að meðaltali 16 stig í leik og var sérstaklega drjúgur í þriggja stiga skotum.

„Hann var hér í hitt í fyrra og veit því hvað hann kemur inn í. Hann var góður þá og við vonumst eftir að hann komi með það sama að borðinu nú,“ segir Viðar.

Bryan spilaði í Noregi í síðustu viku en var í Bandaríkjunum í haust. Hann er fæddur vestan hafs en er einnig með hollenskt vegabréf og á að baki landsleiki þar. Hann mætti á sína fyrstu æfingu á Egilsstöðum í gærkvöldi. „Við vorum að koma honum inn í hlutina þannig hann geti eitthvað verið með í kvöld og var flottur.“

Leikheimils Alberts hefur ekki verið staðfest en Hattarfólk binda vonir við að það verði gerst síðar í dag. Viðar segir ekki frekari breytinga á hóp Hattar að vænta og allir leikmenn séu heilir fyrir leikinn gegn Þór Þorlákshöfn á Egilsstöðum á morgun klukkan 19:15. Leikurinn skiptir miklu máli í baráttu Hattar fyrir sæti sínu í deildinni þar sem Höttur er í 9. sæti en Þór í því 11.

UPPFÆRSLA 13:45: Leiknum hefur verið frestað fram á laugardag, 28. janúar þar sem ekkert er flogið innanlands. Leiktíminn er óbreyttur, 19:15.

Alberts í leik með Hetti vorið 2021. Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar/Hilmar Sigurbjörnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.