Kom í sláturhúsið en reyndist liðtækur í fótbolta

Tveir Moldóvar, Serghei Diulgher og Maxim Iurcu, hafa í sumar spilað með Einherja sem í síðustu viku vann sér á ný sæti í þriðju deild karla í knattspyrnu. Atvinnutækifæri drógu þá báða til Íslands en fram að því höfðu þeir verið atvinnumenn í knattspyrnu í heimalandinu.

„Ég kom hingað fyrst og fremst vegna vinnunnar. Ég gat fengið vel launaða vinnu hér. Vinur minn frá Búlgaríu, sem var liðsfélagi minni í Moldóvu, hafði spilað hérlendis fyrir nokkrum árum og hann sendi mér skilaboð um hvort ég vildi koma og prófa að spila hér. Hann sagði að ég gæti fengið góða vinnu og spilað um leið þannig ég sló til.

Fyrsta árið mitt hér var ég bara að vinna í sláturhúsinu. Ég mætti þó á nokkrar æfingar og Víglundur (Páll Einarsson) vildi endilega fá mig aftur sumarið á eftir. Þannig varð sumarið í fyrra mitt fyrsta með Einherja,“ segir Serghei sem í sumar lék annað tímabil sitt með Einherja og var jafnframt varafyrirliði liðsins.

Hjá félaginu var einnig sóknarmaðurinn Maxim sem skoraði 13 mörk í 15 leikjum í sumar.„Serghei hringdi í mig og sagði hér væri tækifæri fyrir mig til að vinna og spila. Fram að því var ég bara atvinnumaður í fótbolta, síðast hafði spilaði ég með Petrocub, næst besta liðinu í Moldóvu.

Það er samt ekki hægt að lifa bara á 2000 evrum á mánuði. Þess vegna var ég til í að koma og prófa. Ég held að ég sé orðinn nokkuð góður starfskraftur núna,“ segir hann.

Þeir una sér líka vel á Vopnafirði. „Vopnfirðingar eru ótrúlegir. Fólkið elskar liðið og er svo jákvætt. Við finnum mikla ást frá Vopnfirðingum og kunnum virkilega að meta það,“ segir Serghei og Maxim bætir við: „Þorpið er eins og liðið. Þetta er ein stór fjölskylda.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.