Loka snemma út af EM

Afgreiða Sparisjóðs Austurlands í Neskaupstað lokar snemma í dag vegna leiks Íslands og Ítalíu á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu. Sparisjóðsstjórinn segir mikinn áhuga í bænum fyrir mótinu enda tveir einstaklingar úr liðinu þaðan.

Þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson og markvörðurinn Telma Ívarsdóttir eru bæði alinn upp í Neskaupstað.

„Þau eiga bæði mikið af skyldfólki hér sem eflir áhugann á liðinu. Ég var í samskiptum við föður Telmu um daginn og við enduðum báðir á: Áfram Ísland!“ segir Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri.

Afgreiðslan lokar í dag klukkan 15:30 en leikurinn hefst klukkan 16:00. Vilhjálmur segir sama hafa verið uppi á teningnum þegar karlalandsliðið spilaði í lokakeppni stórmóts. „Nú gerum við eins, það er einfalt. Við gerum öllum kynjum jafnt undir höfði. Þetta eru ekki margir dagar á ári sem við lokum snemma.“

Vilhjálmur segir starfsfólk Sparisjóðsins spennt fyrir leiknum og sjálfur talar hann af áhuga um liðið. „Þetta er mjög skemmtileg lið, blanda af ungum og reynslumiklum leikmönnum. Við erum þarna með Sif Atladóttir og Sveindísi Jane og allt þar á milli. Við verðum að vinna þennan leik í dag til að komast áfram úr riðlinum.“

Þriðji Austfirðingurinn í liðinu er síðan Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir en hún ólst upp á Egilsstöðum. Hvorki hún né Telma eru í byrjunarliðinu í dag. Telma meiddist reyndar á æfingu í gær en ekki hafa borist nánari fregnir af hversu alvarleg þau meiðsli eru.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.