Matej: Nutum leiksins frá fyrstu til síðustu sekúndu

Króatinn Matej Karlovic vonast til að Höttur geti haldið sér uppi í úrvalsdeild karla á körfuknattleik á næstu leiktíð. Ljóst varð í kvöld að liðið léki þar á næstu leiktíð eftir 99-70 sigur á Álftanesi í þriðja leik liðanna í umspili um laust sæti.

„Mér líður vel. Við höfum beðið eftir þessu allt tímabilið. Við erum glaðir og ánægðir – við finnum kannski þreytu einhvern tíman um helgina.

Það var ótrúlegt að spila leikinn í kvöld fyrir framan fulla stúku af fólki. Þau fáu augnablik í leiknum sem við gáfum eftir rifu áhorfendurnir okkur áfram. Þeir gerðu það að verkum að við nutum leiksins frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu.“

Matej var stigahæstur í kvöld ásamt David Guardia með 21 stig. Matej átti glæsilega innkomu í fjórða leikhluta þar sem hann raðaði niður þriggja stiga skotunum.

„Ég átti góðan kafla þarna en það eru mjög sterkir einstaklingar í liðinu. Mismunandi leikmenn hafa dregið vagninn í hverjum leik, sem er gott.“

Höttur leikur í fimmta sinn í úrvalsdeildinni næsta vetur. Liðið komst fyrst upp árið 2005, síðan 2015, 2017 og síðast 2020. Í öll skiptin hefur liðið fallið strax aftur.

„Takmarkið er að halda okkur uppi og vonandi tekst það. Sjálfur ætla ég mér að taka góða hvíld og hugsa minn gang en það er erfitt að hugsa annað en til þess að halda áfram loks þegar liðið er komið upp.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar