Reyðfirðingur í Tour de France: Einn efnilegasti hjólreiðakappi heims

Reyðfirðingar eiga sinn fulltrúa í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France. Sá heitir Edvald Boasson Hagen og er reyndar norskur. Hann er talinn einn efnilegasti hjólreiðamaður veraldar um þessar mundir. Ættingjar hans hér heima fylgjast með sínum manni.

 

edvald_boasson_vg.jpg„Það eru alveg hreinar línur að hann er Reyðfirðingur,“ segir Eðvald Jóhannsson á Randabergi í Eiðaþingá um frænda sinn.

Hjólreiðamaðurinn er barnabarn Eðvalds Bóassonar frá Stuðlum í Reyðarfirði. Faðir hans fluttist út eftir fyrri heimsstyrjöldina til að fara í bændaskóla. Hann kom sér upp búi í Nittedal, skammt utan Ósló. Eðvald tók síðan við búinu af föður sínum og býr þar enn.

Dóttir hans, Sonja, er einnig bóndi og hinum 23ja ára gamla hjólreiðagarpi þykir hvergi betra að slaka á en á býlinu hjá móður sinni. Móðurbróðir hjólreiðakappans heitir líka Eðvald Bóasson og allir þrír eru fæddir 17. maí.

„Pabbi Eðvalds, afa hans, er bróðir Valdórs afa míns. Þeir eiga fullt af frændfólki fyrir austan, fólk frá Eyri og til dæmis Bóas sem var skipstjóri á Snæfuglinum,“ útskýrir Eðvald.

Rætt er við Eðvald gamla í norska dagblaðinu Verdens Gang en hann fylgist með Frakklandshjólreiðunum í sjónvarpinu. Hann segir þar frá því að ættingjar hans búi á Íslandi og tengslin séu enn sterk á milli.

Þau eru samt farin að slitna hjá yngri ættliðunum. „Ég hef aldrei komið til Íslands og hef engar sérstakar tilfinningar til landsins. Ég hef hins vegar heyrt gott eitt um það og gæti vel hugsað mér að fara þangað í heimsókn,“ segir Edvald Boasson Hagen.

Eðvald á Randabergi hefur að sjálfsögðu fylgst með nafna sínum. „Hann er mjög efnilegur. Hann datt í fyrradag en hefur verið þriðji á tveimur dagleiðum.“

Edvald er í 103 sæti Frakklandshjólreiðanna eftir fjórtán dagleiðir. Keppnin hófst í Rotterdam í Hollandi þann 3. júlí en keppendur koma í mark í París á sunnudag. Eðvald hjólar í liði Sky sjónvarpsstöðvarinnar. Hann er talinn einn efnilegasti hjólreiðamaður veraldar en hefur ekki áður keppt í Frakklandshjólreiðunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.