Orkumálinn 2024

Þróttur bikarmeistari eftir einn rosalegasta blakleik Íslandssögunnar

blak_throttur_hk_bikar_0314_web.jpgÞróttur Neskaupstað varð í dag bikarmeistari kvenna í blaki eftir 3-2 sigur á HK í úrslitaleik í Laugadalshöll. Þróttur vann fyrstu tvær hrinurnar en gaf eftir og þurfti að hafa fyrir sigrinum í æsilegri oddahrinu.

 

Þróttur spilaði mjög vel í fyrstu tveimur hrinunum, sérstaklega í vörn. Hávörnin virkaði vel og bakverðirnir tóku við því sem datt niður á bakvið. Eftir að staðan var 16-16 í fyrstu hrinu breyttu Norðfirðingar stöðunni í 17-20. HK tók leikhlé , jafnaði í 20-20 og komst síðan yfir 22-21. Þróttarar unnu hrinuna með að skora seinustu fjögur stigin í henni.

Þróttur stakk af í upphafi annarrar hrinu og komst í 1-6 áður en HK tók leikhlé. Það dugði lítið fyrr en eftir fyrra tæknihlé hrinunnar í stöðunni 2-8. Þá vaknaði Kópavogshliðið og minnkaði muninn í 7-8 áður en Þróttur tók leikhlé. Þróttur náði forskoti sínu aftur í 11-16 en HK-ingar minnkuðu muninn í eitt stig, 18-19 eftir langa sókn. Þróttur jók forustuna á ný í 18-22 áður en HK tók leikhlé. Kópavogsliðið jafnaði í 25-24 og komst síðan yfir, 25-24. Á þessum lokaköflum byggðust sóknir Þróttar upp á að koma boltanum út á kantinn til Miglenu Apostolovu til að hún gæti smassað. Það gekk upp því Norðfjarðarliðið vann hrinuna með að skora þrjú seinustu stigin.

Oft vill það verða svo í blakleikjum að þegar annað liðið hefur unnið fyrstu tvær hrinurnar slakar það á þannig að hitt liðið svarar fyrir sig. Í þriðju hrinu virkaði Þróttarliðið hálf sofandi. Ákefðin og einbeitingin sem var til staðar í vörninni hvarf og HK skoraði auðveld stig, til dæmis beint úr uppgjöfum. Kópavogsliðið komst í 8-3 en Þróttur jafnaði í 10-10. Aftur tók HK forustuna og komst í 19-14 en Þróttur minnkaði skoraði þá þrjú stig í röð. HK sýndi magnaða vörn í stöðunni 21-17 með að elta boltann lengst til hliðar út fyrir völlinn. Það dugði samt ekki langt því þegar boltinn kom næst yfir netið endaði hann í gólfinu. Það var samt seinasta stig Þróttar í hrinunni sem HK vann 25-18.

HK náði strax forustunni 8-2 í upphafi fjórðu hrinu. Eftir að munurinn var kominn í tíu stig, 16-6, fór Apostolov Apostolov, þjálfari Þróttar, að undirbúa oddahrinuna. Lykilmönnum, sem voru teknir að þreytast var skipt út af og yngri leikmennirnir fengu að spreyta sig. HK vann hrinuna örugglega 25-12.

Í oddahrinum þarf aðeins að skora 15 stig til að vinna en munurinn þarf að vera tvö stig. Þróttur skoraði fyrstu tvö stigin en HK svaraði fyrir sig og liðin skiptust á forustunni. HK komst í 8-6 en Þróttur jafnaði í 8-8. Aftur komst HK tveimur stigum yfir, 10-8 en Þróttur svaraði með fimm stigum í röð. Þá virtist bikarinn stefna austur á Norðfjörð en HK jafnaði. Í hönd fór æsilegur endasprettur þar sem forustan sveiflaðist á milli liðanna. Bæði fengu færi á að gera út um leikinn en mistókst. Til að mynda enduðu tvö kantsmöss Helenar Kristínar Gunnarsdóttur, sem annars átti góðan leik, í netinu. Sem fyrr í þessari stöðu leitaði Þróttarliðið að Miglenu, sem reyndist vel en annar reynslubolti, Unnur Ása Atladóttir, skilaði líka sínu á þessum kafla. Eftir mikla baráttu tókst Þróttarstelpum að smassa boltanum í gólf HK og tryggja sér 17-19 sigur í hrinunni.

Leikurinn tók um tvo tíma. Honum voru ætlaðar 90 mínútur í dagskrá og átti úrslitaleikur karla að hefjast 15:00 en sá hófst ekki fyrr en rúmlega 16:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.