Stefán Númi í raðir Potsdam Royals

Egilsstaðabúinn Stefán Númi Stefánsson hefur samið við eitt stærsta lið Evrópu í amerískum fótbolta, Potsdam Royals í Þýskalandi.

Stefán Númi lék síðasta sumar með Swarco Raiders í Austurríkinu. Með liðinu varð hann austurrískur meistari auk þess sem liðið lenti í öðru sæti Evrópubikarsins.

Þýska deildin er almennt talin næst sterkasta deildin í íþróttinni í Evrópu. Potsdam Royals unnu Evrópuskálina árið 2019 og komust í undanúrslit þýsku deildarinnar í fyrra en töpuðu þar fyrir verðandi meisturum Dresden Monarchs.

Stefán kemur til Potsdam ásamt félaga sínum Stanley Aronokhale. „Við hlökkum virkilega til að fá þá báða. Þeir eru frábær viðbót við þeirra línur, vel stemmdir og óþreytandi í að ná lengra,“ er haft eftir yfirþjálfaranum Michael Vogt á heimasíðu Potsdam.

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir tímabilinu þar sem ég tel þetta vera mjög gott tækifæri til að bæta mig á öllum sviðum íþróttarinnar. Potsdam Royals hafa fengið mjög góðan þjálfara í mína stöðu, sóknarlínuna, Randy Jackson. Hann hefur margra ára reynslu af þjálfun þessarar stöðu auk þess sem hann hefur skrifað metsölubækur um hugarfar í íþróttum og amerískum fótbolta,“ segir Stefán Númi í samtali við Austurfrétt.

Hann er 26 ára gamall og spilaði körfubolta upp alla yngri flokka Hattar og um tíma með meistaraflokki áður en hann snéri sér að ameríska fótboltanum sem hann kynntist í Danmörku.

Stefán Númi hefur verið heima á Egilsstöðum eftir að tímabilinu í Austurríki lauk síðasta vetur. Hann fer út í byrjun apríl þegar undirbúningstímabilið byrjar en fyrsti deildarleikur Potsdam er 21. maí.

Stefán Númi (hvítur) í leik með Swarco Raiders Tirol síðasta sumar. Mynd: Fannar Magnússon.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.