Stórmótin glæða áhuga krakkanna á handboltaæfingum
Valur Reyðarfirði er eina austfirska íþróttafélagið sem býður upp á reglulega handknattleiksæfingar. Þjálfari segir þátttökuna góða og vonast til að nýhafið heimsmeistaramót auki áhugann enn frekar.„Við fórum af stað með æfingarnar fyrir ári. Í kringum Evrópumótið þá kviknaði mikill áhugi þannig ég ákvað að bjóða upp á æfingarnar,“ segir Kristín Kara Collins, handknattleiksþjálfari Vals.
Um 30 börn mættu á æfingarnar þannig að skipt var í tvo hópa eftir ári. Nú eru þar æfingar fyrir 3. – 5. bekk annars vegar en 6. – 8. bekk hins vegar. Áhuginn hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarið ár og vonast Kristín Kara til að heimsmeistaramót karla, þar sem Ísland lék sinn fyrsta leik í gærkvöldi, glæði áhugann enn meira.
„Ég hef heyrt aðeins í krökkunum og þau hafa fylgst með síðustu leikjum liðsins. Við vonumst eftir að fleiri bætist við. Æfingarnar eru stilltar þannig af að þær passi við almenningssamgöngurnar, við höfum til að mynda fengið krakka hingað frá Eskifirði.“
Mikill áhugi er síðan fyrir mótinu. „Það er stemming, við höfum klætt okkur upp í landsliðsbúninga. Við erum bjartsýn á að liðið komist langt. Í fyrra var horft á leikina á stóru tjaldi hér niðri í sal en nú eru leikirnir flestir eftir skólatíma.“
Lítil handknattleikshefð er á Austurlandi og áratugir síðan reglulegar æfingar voru á Reyðarfirði. „Við höfum ekki spilað neina leiki enn því það er langt í næstu félög, á Akureyri og Húsavík. Eldri hópurinn stefnir á æfingaleik við KA á þessari önn, við höfum verið í sambandi við fólk þar.
Alfreð Örn Finnsson, prestur á Djúpavogi, er fyrrum handknattleiksþjálfari og var okkur innan handar þegar við fórum af stað, til dæmis við að fá bolta. Hér voru bara mörk,“ útskýrir Kristín Kara.
Spennt fyrir nýju íþróttahúsi
Nú er verið að ljúka við byggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði með handknattleiksvelli í fullri stærð. Það mun liðka fyrir æfingunum. „Eins og staðan er í dag þá getum við ekki æft með hornamönnum. Það tekur út tvo af sex útileikmönnum.“
Það tekur líka út stöðuna sem Kristín Kara spilaði sjálf á sínum tíma en hún á meðal annars að baki leiki með íslensku unglingalandsliðunum. „Ég byrjaði tíu ára með ÍR. Eftir grunnskóla var ég eitt ár í íþróttaskóla í Danmörku og spilaði þá með Holstebro. Næst spilaði ég með Val og varð þar bæði Íslands- og bikarmeistari en var síðan hætt fyrir tvítugt,“ segir hún.
Þótt handknattleiksæfingar hafi ekki verið á Reyðarfirði um hríð segir Kristín Kara krakkana þar vera efnileg í íþróttinni. „Þau eru mjög áhugasöm og metnaðarfull. Það er það sem þarf til að ná árangri í handbolta. Allt annað kemur með æfingunni.“