Sveinn Fannar íþróttamaður Fjarðabyggðar
Sveinn Fannar Sæmundsson, knattspyrnumaður úr Neskaupstað, var í gær útnefndur íþróttamaður Fjarðabyggðar árið 2010.
Sveinn Fannar er fæddur árið 1993 en á að baki verkefni með U-19 ára landsliði Íslands. Í rökstuðningi fyrir valinu segir að Sveinn hafi verið fastamaður og fyrirliði annars flokks Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF) sem varð Íslandsmeistari í C deild í sumar og vann sér því sæti í B deild auk þess sem hann spilaði 14 leiki fyrir meistaraflokk liðsins í 1. deild.
Í rökstuðningnum segir að Sveinn Fannar hafi mikinn metnað fyrir íþróttinni og mæti á allar æfingar með það að leiðarljósi að bæta sig. Hann leggi miklar áherslu á heiðarleika, jafnt innan vallar sem utan og sé fyrirmynd ungra leikmanna.
Sveinn Fannar, til vinstri, tekur við viðurkenningarbikar úr hendi Jóhanns Ragnars Benediktssonar sem var útnefndur íþróttamaður Fjarðabyggðar í fyrra. Mynd: Fjarðabyggð.