Tvö rauð á Fjarðabyggð í jafntefli gegn Þór

kff_thorak_0040_web.jpgFjarðabyggð og Þór gerðu í kvöld 1-1 jafntefli á Eskifjarðarvelli. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik. Tvö rauð spjöld bættust við á Fjarðabyggðarliðið í leikslok.

 

Þórsarar komust yfir snemma í leiknum með marki Ármanns Péturs Ævarssonar af stuttu færi eftir að Fjarðabyggðarmönnum hafði mistekist að hreinsa frá. Fannar Árnason jafnaði fyrir Fjarðabyggð á 27. mínútu þegar hann ýtti boltanum inn eftir fyrirgjöf sem varnarmenn Þórs misstu yfir sig.

Fjarðabyggð hafði ágæt tök á leiknum í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér marktækifæri. Þórsarar náðu síðan völdunum í síðari hálfleik og áttu ívið betri marktækifæri. Það besta var á 90. mínútu þegar Jóhann Ragnar Benediktsson hreinsaði frá á marklínu eftir skalla úr hornspyrnu.

Leikurinn varð 99 mínútur eftir læti undir lokin. Á 80. mínútu tæklaði Fannar Árnason markvörð Þórsara illa þegar hann henti sér af miklu afli í bolta sem hann virtist enga möguleika eiga á. Markvörður Þórs meiddist á hné og töluverður tími fór í að hlúa að honum. Nokkrar stympingar urðu milli leikmanna og fékk einn leikmanna Þórs gula spjaldið.

Þegar komið var fram á 95. mínútu hitnaði enn í leikmönnum. Eftir brot Fjarðabyggðar á leikmanni Þórs hrinti einn Þórarinn Daniel Sakaluk og fékk gult spjald fyrir. Daniel skammaðist út í dómarann, fékk sitt annað gula spjald og þar með aðra brottvísun sína í sumar. Heimir Þorsteinsson, öðrum þjálfara Fjarðabyggðar, var um leið vísað af varamannabekknum fyrir mótmæli.

Fjarðabyggð saknaði framherjans Arons Smárasonar í leiknum og Daníel Guðmundsson var einnig frá vegna meiðsla.
„Menn virðast það hér á Íslandi að menn séu „übermensch.“ Við eigum að spila þrjá leiki á viku. Það tekur sinn toll,“ sagði Páll Guðlaugsson, þjálfari Fjarðabyggðar, í samtali við Agl.is eftir leikinn.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn betri. Þórsarar eru með gott lið og miðað við þær hrókeringar sem við þurftum að gera fyrir leikinn stóðum við okkur ágætlega. Leikurinn hefði getað dottið hvorum megin sem er en jafnteflið var sennilega sanngjarnt. Við erum líka að gefa ungum leikmönnum tækifæri og ekki gefið þeim neina hvíld því þeir hafa líka spilað með öðrum flokki. Þeir leikmenn hafa staðið sig mjög vel.“

Fjarðabyggð tilkynnti í vikunni um að félagið hefði fengið framherjann Sveinbjörn Jónasson aftur frá Grindavík, en Sveinbjörn spilaði mjög vel með Fjarðabyggð sumarið 2008. Sveinbjörn verður gjaldgengur með Fjarðabyggð í næsta leik en opnað verður fyrir leikmannaviðskipti á miðnætti.
„Sveinbjörn styrkir okkur mikið. Hann þekkir vel til liðsins,“ sagði Páll sem sagðist ekki vita til þess að frekari breytingar væru yfirvofandi á liðinu. Leikmannaviðskipti væru þó í höndum stjórnarinnar.

Höttur tapaði 4-2 fyrir KS/Leiftri á útivelli í 2. deild. Stefán Þór Eyjólfsson og Högni Helgason skoruðu mörk Hattar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.