UÍA fólk í fyrsta sinn á palli í Íslandsglímunni

islandsgliman_0913_web.jpgÁsmundur Hálfdán Ásmundsson og Ragna Jara Rúnarsdóttir náðu um helgina besta árangri sem Austfirðingar hafa náð í Íslandsglímunni þegar þau höfnuðu í þriðja sæti í sínum flokkum.

 

Ásmundur Hálfdán, sem er 17 ára, lagði Jón Smára Eyþórsson úr Ármanni í úrslitaglímu um þriðja sætið. Báðir voru með 4,5 vinninga eftir glímurnar átta.

Hjalti Þórarinn Ásmundsson, bróðir Ásmundar Hálfdáns, varð í fimmta sæti með fjóra vinninga og þriðji bróðirinn Magnús Karl vann eina glímu. Hann glímdi samt seinni hluta keppninnar meiddur.

Fjórði UÍA maðurinn, Sindri Freyr Jónsson, varð að hætta keppni vegna meiðsla. Hann háði samt hörkuglímu við glímukónginn Pétur Eyþórsson í fyrstu umferð.

Í glímunni um Freyjumenið náði Ragna Jara þriðja sætinu eftir úrslitaglímur um 2. – 4. sæti. Hún, Hugrún Geirsdóttir, HSK og Guðbjörg Lóa Þorgrímsdóttir, GFD, urðu jafnar með fimm vinninga. Í úrslitaglímunum fékk Ragna Jara einn vinning en Guðbjörg Lóa náði silfursætinu með 1,5 vinning. Marín Laufey Davíðsdóttir, HSK, varð glímudrottning með 7,5 vinninga.

Af öðrum UÍA keppendum í kvennaflokki er það að frétt að Laufey Frímannsdóttir varð fimmta með 3,5 vinninga og þær Þuríður Lillý Sigurðardóttir, Eva Dögg Jóhannsdóttir og Hekla María Samúelsdóttir urðu í sjöunda, áttunda og níunda sæti.

Myndband af glímu Ásmundar Hálfdáns og Jóns Smára um bronsið frá UÍA.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.