Varði víti í fyrsta landsleiknum: Ég bara las hann

island_noregur_u21_06092011_0022_web.jpgÁsgeir Magnússon, markvörður 2. deildar liðs Hattar í knattspyrnu, vakti mikla athygli á þriðjudag þegar hann kom inn á og varði vítaspyrnu í sínum fyrsta leik með U-21 árs landsliði Íslendinga. Hann segir það hafa verið mikilvæga reynslu að spila með Hattarliðinu í sumar.

 

„Ég bara las hann,“ svaraði Ásgeir þegar hann var spurður að því hvort hann hefði vitað hvert norski sóknarmaðurinn Joshua King myndi skjóta. Ásgeir kom inn á í leik Íslendinga og Norðmanna á þriðjudag þegar aðalmarkvörðurinn Arnar Darri Pétursson meiddist eftir að hafa brotið á norskum sóknarmanni og fengið á sig víti. Geir Goldfinger, eins og hann er kallaður meðal samherja sinna, kom þá inn á og hélt íslenska liðinu á floti.

„Eyjólfur (Sverrison, þjálfari liðsins) sagði okkur að fylgjast með leiknum og vera alltaf tilbúnir að koma inn á. Ég var það og það var mjög gaman að fá þetta tækifæri.“

Ásgeir hefur verið í láni hjá Hetti í sumar frá Val. Hann æfir með Valsliðinu og flýgur austur í leiki. „Það hefur verið frábært að spila með Hetti í sumar. Það að fá tækifæri í byrjunarliði í hverri viku eflir sjálfstraustið verulega.“

Tvær umferðir eru eftir af annarri deildinni og á sunnudag heimsækir Höttur Árborg. Liðið er í öðru sæti deildarinnar sem veitir keppnisrétt í fyrstu deild á næsta ári, tveimur stigum á undan liðinu í þriðja sæti.

Aðspurður um lokasprettinn í deildinni svaraði Ásgeir einfaldlega: „Við tökum þetta – engar áhyggjur!“
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.