„Verð nú rólegur fram að HM á næsta ári“

„Ég var bara illa sofinn og með hausverk þegar ég var að skjóta og náði mér eiginlega ekkert á strik fyrr en í blálokin,“ segir Haraldur Gústafsson, bogfimisnillingur úr Skotfélagi Austurlands.

Hann er ósáttur við árangur sinn á nýafstöðnu Evrópumóti í bogfimi utanhúss en þar endaði hann í 57. sætinu í einstaklingskeppni á mótinu að þessu sinni og í 28. sætinu í liðakeppninni. Mótið var haldið í Munchen í Þýskalandi og yfir 400 einstaklingar tóku þátt.

Haraldur kann engar skýringar á þessu ástandi hans í keppninni en hitastigið var lítið að hjálpa enda fór mælirinn langleiðina í 30 stig þegar heitast var.

„Það er upp og niður í þessu sem öðru svo ég ætla ekkert að staldra við þennan árangur heldur lít fram á veg. Nú fer í hönd að fara að kenna bogfimi í sumar og ég held mér rólegum fram að HM á næsta ári. Það stóð alltaf til hjá mér að taka svona eitt rólegt ár í þessu og það ætla ég að gera það sem eftir lifir árinu.“

Haraldur var fyrr í vor valinn íþróttamaður ársins hjá UÍA og segir hann að sá heiður hafi haft töluverð áhrif á sig.

„Það er engin smávegis félagsskapur sem maður er kominn í þar og ég er mjög stoltur að hafa fengið slíka viðurkenningu. Það ýtti aðeins við mér sannarlega og í kjölfar þess fór ég að fá fleiri skeyti frá fólki sem vildi forvitnast um bogfimikennsluna. Þar hefur yfirleitt verið svipaður fjöldi sem það stundar en það væri óskandi að fleiri bætist í hópinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.