Viðar Örn: Allir stóðu sig frábærlega í kvöld

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ánægður í kvöld eftir að markmiði liðsins um að komast beint aftur upp í úrvalsdeild karlar í körfuknattleik var náð með 99-70 sigri á Álftanesi á heimavelli.

„Ég vil hrósa Álftanesi. Þeirra byrjunarlið er þrusugott og því er ég hrikalega ánægður með hvernig við fórum í gegnum þessa seríu. Það er ekki auðvelt að vinna þrjá leiki í röð á móti góðu liði.

Það er ekki auðvelt að koma í svona leik og Álftanes hefði getað gefist upp eftir annan leikinn en liðið hefur farið í erfið ferðalög og kom hingað til að leggja sig fram.

Við náðum að stíga vel á þá strax, hittum vel í byrjun og síðan héldum við áfram að stíga á þá meðan þeir bognuðu og bognuðu uns þeir brotnuðu alveg í hér í lokin. Ég er mjög ánægður með mína menn, þeir voru mjög fagmannlegir í því sem þeir voru að gera,“ sagði Viðar Örn.

Leystum verkið frábærlega

Höttur varð í öðru sæti deildarinnar og þurfti því í gegnum úrslitakeppnina. Þar tapaði liðið ekki leik en áður en kom að Álftanesi vann það Fjölni í þremur leikjum.

„Það er ekkert meira um það að segja en Hattarliðið var stálheilt. Áskorunin var að vinna þessa úrslitakeppni og þegar að henni kom stigu leikmenn upp, stóðu betur saman og körfuboltinn varð betri og betri.“

Á köflum í kvöld sýndi Höttur einn besta sóknarleik sem liðið hefur spilað. „Það var líka áskorun fyrir okkur að halda áfram, Álftanes var með bakið upp við vegg en hefur mikla keppnismenn og góða leikmenn. Við unnum verkið einfaldlega frábærlega.“

Góður heimavöllur skiptir máli

Aðspurður kvaðst Viðar sáttur við tímabilið enda markmiðið um að fara upp í höfn. „Við erum enn að vinna að langtímamarkmiðið félagsins um að meistaraflokkur karla eigi fast sæti í úrvalsdeild. Til þess þurfum við áfram að þétta raðirnar.

Í það hefur verið lögð mikil vinna. Þess vegna vil ég þakka fólkinu í félaginu og stuðningsmönnunum því þetta byggist ekki bara á leikmönnunum. Góður heimavöllur skiptir máli og að hafa stuðningsmennina eins og hér í kvöld.“

Vel var mætt á leikinn í kvöld og var fólk enn á leið inn þegar leikurinn var kominn í gang. „Við höfum verið að vinna í að fá fólk fyrr á völlinn. Við þurfum kannski að búa til meiri skemmtun. Stundum er eins og allir sem mæta séu Jökuldælingar sem kunna ekki á klukku!“

Hann vildi annars lítið gefa upp um næstu skref. „Það hafa leikmenn skrifað undir samning, við getum rætt það betur á mánudag. Ég ætla að njóta þessa augnabliks.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.