Rögnvaldur gáfaðri?

Júní 2013 003Rögnvaldur Ragnarsson bóndi á Hrafnabjörgum IV í Jökulsárhlíð er ekki eins og aðrir menn. Sannast sagna þá er eiginlega dálítið langt frá því að hann bindi bagga sína sömu hnútum og samferðamenn sínir.

Þetta kom reyndar bókstaflega í ljós þegar Freyr Eyjólfsson hjá RÚV ræddi við hann um heyskapinn, en Rögnvaldur notar Bronco jeppa þar sem meðalmenn láta sér duga dráttarvélar. Þá er Rögnvaldur skáld sem á sér ekki sinn líka bæði í efnistökum og stíl. Síðast en ekki síst er hann síðan líka refaskytta.

Reyndar hefur verið tíst um það í hornum hér og þar að það séu ekki beint meðmæli með honum sem slíkum að það komist nánast undantekningalaust í fjölmiðla þegar honum verður það á að farga melrakka.

Frægt varð þegar Rögnvaldur skaut ref á nærbuxunum, eins og greint var frá hér á vefnum fyrir nokkrum misserum, og eru menn enn að tísta um það hvernig refurinn komst í þessar nærbuxur. En meira að segja það fellur í skuggann af því hvernig Rögnvaldur sá fyrir sínu nýjasta fórnarlambi.

Svo er frá sagt að morgun einn hafi Rögnvaldur verið að aka út Hlíð á sínum afbragðs góða vörubíl og þar orðið fyrir honum refur á veginum. Horfast þeir í augu í vegarykinu þangað til refurinn verður undan að láta og tekur á rás, en Rögnvaldur skjótt á eftir... á vörubílnum.

Tekur við æsispennandi eltingaleikur þar sem refurinn lítur hvorki til hægri né vinstri en heldur sig við veginn, sem Rögnvaldur gerir einnig, og má vart á milli þeirra sjá hvor er æstari eða móðari.

En refabaninn áttaði sig fljótt á því að hann hefði það forskot á bráðina sem nútíma tækni getur veitt. Hringdi hann snarlega í Surtsstaðabónda og segir af eltingaleiknum sem endar svo með því að mátulega þegar bóndi er kominn niður að þjóðvegi með byssu sína er refurinn kominn í dauðafæri og lýkur þar hans sögu. 

Er þetta til marks um einstaka hæfni Rögnvaldar sem refaveiðimanns að hann þarf ekki einu sinni byssu til þess að ná bráð sinni, sem þó efast enginn um að er hans bráð klárlega.

Þjóðskáld eiga það sannarlega skilið að um þau sé ort og af þessum atburðum varð til þetta kvæði, sem er ort undir þeim bragarhætti sem Rögnvaldi sjálfum er kærastur, svokölluðum bommfadderí-hætti:

Rögnvaldur drap ref í morgun
bommfadderífadderallala
ríflega mun heimta borgun
bommfadderífadderallala
Af því mikinn heiður hlaut
hann samt ekki refinn skaut
bommfadderí
bommfaddera
bommfadderífadderallala

Svo mörg voru þau orð, en það tísta margir hér fyrir austan um að Norðlendingar geti barasta átt sinn Rögnvald Hvanndalsbróður. Okkar Rögnvaldur er nefnilega gáfaðri!

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.