„Lengst oní móðu Lagarfljóts“

Internetið reyndist ekki vera bóla. Það hefur þvert á móti vaxið og dafnað og þar reynast nú ýmsir skrýtnir miðlar og kimar.

Einn þessara kima er vefritið Herðubreið, í ritstjórn snyrtimennisins og orðabelgsins Karls Th. Birgissonar. Að undanförnu hafa birst þar umfjallanir ýmissa valinkunnra manna um jólabækurnar í ár og er einn þeirra sem spreytt hefur sig í hlutverki ritdómara Héraðsbúinn og lögfræðingurinn Stefán Bogi Sveinsson.

Fór hann nokkuð mikinn í umfjöllun um nýja ljóðabók Halldórs Laxness Halldórssonar (Dóra DNA). Var hann afar hrifinn af bókinni og taldi meðal annars ekki ómögulegt að afleiðingar af lestri hennar yrðu þær að hann færi á fjörur við skáldið og drægi það á tálar.

Annar eiginleiki internetsins er sá að skrifin fara víða og viðbrögð berast jafnvel snöggt. Ekki löngu eftir að grein Stefáns Boga birtist hafði skáldið og hagyrðingurinn Bjarki Karlsson brugðist við og ort af því tilefni, enda greinilega mjög brugðið.

Lengst oní móðu Lagarfljóts
langir og djúpir álar
siðvöndum ormi hafa hlíft
hryllingi við, sem kálar:
þegar hann Stefán Bogi ber
bröltandi leitar sálar,
stekkur á Dóra DNA
og dregur'ann hýr á tálar.

Eins og oft áður mátar Bjarki sig við stílbrögð annarra þekktra skálda og má segja að þetta gæti sem best verið viðbót við hið þekkta kvæði Áfangar eftir Jón Helgason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.