Upphefð diskómastursins á Eiðum

Ljóstæknifélag Íslands óskar nú eftir tilnefningum til Íslensku lýsingarverðlaunanna árið 2015. Verðlaunin voru í fyrsta sinn afhent síðastliðinn vetur og verður verðlaunahafinn jafnframt fulltrúi Íslands í Norrænu lýsingarverðlaununum (Nordisk lyspris).


Í lýsingu segir að senda megi út verkefni í utanhússlýsingu bygginga, lýsingu opinna svæða og fleiru. Þeim verði hins vegar að hafa lokið á árunum 2014-15.

Á Héraði tísta menn um að rétt sé að tilnefna lýsinguna á langbylgjumastri RÚV á Eiðum til verðlaunanna. Íbúar hafa amast undan ljósunum sem eiga að vera til að vara flugvélar við en þau hafa átt það til að bila og berst þá skært hvítt ljós sem blikkar í föstum takti víða um svæðið.

Því færi mastrið vafalaust í flokk lýsingar opinna svæða því í þessu stuði lýsir frá því lengst upp á Fagradal og eiginlega um allt Hérað svo lengi sem fjöll eða tré hemja það ekki.

Helsta vandamálið er skilyrðið um lok verksins. Eflaust halda einhverjir því fram að því hafi í raun aldrei verið lokið en aðrir benda á að tæknimenn RÚV telji sig hafa lokið því í hvert skipti sem þeir fari upp til að reyna að gera við búnaðinn.

Íbúar á Eiðum eru líklegastir til að leggjast gegn tilnefningunni enda yrði mastrið og ljós þess friðuð til frambúðar þegar hin norrænu verðlaun væru komin til hús. Þeim til huggunar myndi fasteignaverð á staðnum eflaust hækka enda viðbúið að vinsælt verði að búa á jafn verðlaunuðu og upplýstu landssvæði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.