Veður

„Mældu rétt!“

Einmuna blíða er víðast hvar á Austurlandi í dag og raunar um allt Norðausturhorn landsins. Hiti fór yfir 20 stig á Egilsstöðum í hádeginu og samfélagsmiðlar loga af innibyrgðu veðurgrobbi Héraðsbúa, sem ekki fengu mikil tækifæri til að viðra það (hohoho) síðasta sumar.

Þeir sem fylgst hafa spenntir með hitatölum í morgun hafa ekki orðið fyrir vonbrigðum, en æsispennandi keppni er í gangi um hvaða staður mun sýna hæsta hitatölu í lok dags. Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði voru lengst af í forystu á Austurlandi, en veðurmælar á Húsavík við Skjálfanda sýndu þó örlítið hærri tölur. Um hádegisbil kólnaði síðan skyndilega á Skjaldþingsstöðum en hiti tók að stíga inn til landsins. Egilsstaðir og Ásbyrgi kepptust lengi vel við, en eftir því sem líða tók á daginn sótti Hallormsstaður í sig veðrið (hohohoho).

Þessar háu hitatölur á Egilsstöðum eru ekki sjálfsagðar, enda hafa Egilsstaðabúar árum saman haldið því fram að veðurathugunarstöðin, sem er á Egilsstaðaflugvelli, sé staðsett í alræmdum kuldapolli, en talað fyrir daufum eyrum. Veðurviðkvæmni Austfirðinga er líka töluverð má minnast þess þegar Valdimar Benediktsson á Egilsstöðum auglýsti eftir „örvhentum og ólygnum veðurfræðingi“ og Hamarsfirðingurinn Eiður Ragnarsson lýsti því yfir að á Austurlandi gengi á með „jakkafötum og hvítri skyrtu næstu daga“ þegar honum blöskraði skortur á rýmisgreind veðurfræðinga sjónvarpsins.

Allt þetta segir okkur auðvitað að hóflegt mark sé takandi á veðurmæli Veðurstofu Íslands á Egilsstaðaflugvelli og því rétt að kenna óinnvígðum hvernig á að nálgast sannar og réttar fréttir af hitastigi á Egilsstöðum. Það segja heima menn að sé best gert með því að skoða tölur af eigin hitamæli Hitaveitu Egilsstaða og Fella, sem Guðmundur Davíðsson, hitaveitueinvaldur til margra ára, lét koma fyrir á dælustöð HEF við Tjarnarbraut á Egilsstöðum. Þar ku vera hægt að fá staðreyndar tölur sem skáka öllu sem „sérfræðingar að sunnan“ vilja bjóða upp á. Rétt er að geta þess að í dag er reyndar gott samræmi á milli talna Veðurstofunnar og HEF og því óhætt að taka mark á ríkisapparatinu, svona einu sinni.

En HEF mælirinn er ekki eini hitamælirinn á Egilsstöðum sem heimafólk kýs frekar en hinn opinbera. Þar sem ekið er inn í bæinn af Egilsstaðanesi er við bensínstöð Orkunnar, framan við verslun Bónus, hitamælir sem kalla má montmæli Egilsstaðabúa, ellegar gleðimæli. Þar má nefnilega jafnan lesa hitatölur sem eru þeirrar náttúru að þær lyfta geði heimafólks og ef þörf krefur er hægt að horfa aðeins á þann mæli og lifa sæll í þeirri trú að hitinn á Egilsstöðum hafi í dag farið yfir 28 gráður, eða hvað það var sem á honum stóð í dag. Og hver vill það ekki?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.