Austfirskur fréttaannáll 2013 - Nóvember

Article Index

nordfjardargong bomba hanna birna webNóvember:

Tveir sjómenn á leið heim til Hafnar úr róðri frá Breiðdalsvík drýgðu hetjudáð þegar þeir vöktu og björguðu sjö manna fjölskyldu úr brennandi húsi í Berufirði.

Austurbrú stóð fyrir stórri ráðstefnu um atvinnumál í fjórðungnum. Þar var meðal annars rædd hugmynd um hálendisveg norðan vatnajökuls, fiskeldi og tækifæri á Norðurslóðum.

Það féll þó í skuggann af ósk forsvarsmanna Smyril-Line um að ræða við Fjarðabyggð um möguleikann á að hafnir þar yrðu framvegis viðkomustaður ferjunnar Norrænu, að minnsta kosti yfir vetrarmánuðina.

Bátaverksmiðjan Rán á Djúpavogi afhenti fyrsta bátinn til kaupanda. Haldið var íbúaþing um framtíð byggðar á Breiðdalsvík en gleðin snérist fljótt upp í vonbrigði þegar ljóst var að enginn auka byggðakvóti kæmi í byggðarlagði.

Mikil gleði var í Fjarðabyggð þegar byrjað var að sprengja fyrir nýjum Norðfjarðargöngum frá Eskifirði. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að sprengja Norðfjarðarmegin í janúar. Göngin eiga að vera tilbúin árið 2017.

Á Djúpavogi hefur skólabörnum fjölgað svo að grunnskólinn er sprunginn. Á Dalatanga mældist 20 stiga hiti þann 20. nóvember.

Rostungar voru meðal þeirra ferðalanga sem heimsóttu Austurland í sumar og sáust í Reyðarfirði, Seyðisfirði, á Borgarfirði og loks í Mjóafirði.

Erna Friðriksdóttir, skíðakona, hélt utan til Bandaríkjanna til æfinga fyrir vetrarólympíuleika fatlaðra og jólatréð við Kaupfélagið á Egilsstöðum hefur aldrei verið stærra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sprengdi fyrstu sprenginguna fyrir nýjum Norðfjarðargöngum og varð þar með fyrsta konan til að vinna slíkt verk hérlendis. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.