Þú ert „drekinn"

oli hr sig sfk pixladurAldrei hafði mér dottið í hug að ég ætti eftir að verða rekinn úr vinnu. Hef ætíð lagt mig fram við alla vinnu sem ég hef unnið um dagana og oftast unnið talsvert umfram það sem ætlast var til af mér. Fáa daga hef ég legið heima veikur og aldrei hefur mér dottið í hug að tilkynna mig veikan þegar ég hef ekki verið það. Hef ætíð lagt mig fram um að koma vel fram við vinnufélaga og vinnuveitendur, sama hvort mér hafa þótt þeir skemmtilegir eða leiðinlegir. Man reyndar ekki eftir nema skemmtilegum samstarfsmönnum og reyndar mörgum alveg hrikalega skemmtilegum. En sem sagt nú kom að því.

Rekinn frá Alcoa Fjarðaáli eftir tæplega fjögurra ára starf. Reyndar tókst mér á einhvern óskiljanlegan hátt að fara svo í taugarnar á mínum yfirmönnum að þeir ráku mig tvisvar með skömmu millibili. Það hlýtur að vera met.

Fyrst var ég rekinn sem leiðtogi í kerskála. Ástæðan ekki augljós enda ekki verið gerðar neinar athugasemdir við mína vinnu fyrr en skömmu áður en að brottrekstri kom. Var reyndar sagt að ég hefði meiri áhyggjur af heilsu og vinnuálagi þeirra starfsmann sem undir minni stjórn voru að vinna en hagsmunum fyrirtækisins. Þá kom ég alltof vel út sjálfur í „Starfsánægjukönnun Alcoa" á meðan mínir yfirmenn fengu falleinkunn. Ég hef alltaf talið að hver skapaði sína virðingu sjálfur en það er greinilega ekki þannig að mati yfirmanna Alcoa.

Nú var ég svo sem ekki að pirra mig neitt sérstaklega á þessari niðurstöðu minna yfirmanna enda hafði ég svo sem ekkert um það að segja. En voðalega hefði nú verið gott ef einhver hefði skýrt út fyrir mér hlutverk leiðtoga í byrjun því þá hefði ég einfaldlega aldrei sótt um þessa stöðu enda greinilega alveg gjörsamlega misskilið mitt hlutverk frá upphafi.

Nú en hvað um það mér var nú samt boðið að vinna áfram hjá fyrirtækinu, að vísu mátti ég ekki fara aftur á mínu gömlu vakt, en sagt að ég mætti velja mér vinnusvæði og vakt sjálfur. Var ég feginn því að vera þó ekki metinn með öllu óhæfur starfsmaður og var ákveðinn í því að fara bara aftur „á gólfið" að vinna.

Til að gleðja nú mína gömlu vakt ákvað ég í samráði við leiðtoga, sem tekið hafði við af mér, að koma í heimsókn sem jólasveinn enda dregið nærri jólum. Hafði ég gert þetta árið áður og allir haft af því nokkurt gaman. Nú ég mætti á vaktina sem jólasveinn og færði vaktinni nammi og gos. Jafnframt var ég með svona smá jólasveinauppistand.

Illu heilli þá var einn ágætur drengur þarna staddur og tók þetta upp á símann sinn, án þess að ég yrði var við, og setti þetta svo inn á netið, líka án minnar vitundar, þar sem honum þótti þetta skemmtileg uppákoma. Nokkrum dögum síðar var ég svo kallaður niður í álver þar sem mér var tilkynnt að inn fyrir dyr þessa álvers kæmi ég ekki aftur. Einhverjir af toppunum hjá Fjarðaáli þóttust greina uppreisnartón í jólasveininum og að hann hefði gert grín að fyrirtækinu. Slíkt væri ekki líðandi.

Nú skal það alveg viðurkennt að eitthvað í þessu jólasveinauppistandi mátti vafalaust túlka þannig að ég væri að gera grín að fyrirtækinu en aðallega var ég samt að gera grín að mér sjálfum. Á einum sólarhring fór ég á þrjá staði sem jólasveinn. Í leikskólann á Seyðisfirði og grunnskólann og svo til Alcoa. Bara á einum stað urðu menn hræddir við jólasveininn.

Verð ég að viðurkenna það að ég fór heldur beygður af vinnustaðnum en þó fyrst og fremst gríðarlega undrandi. Samkvæmt reglum Alcoa hefði ég kannski átt að fá skriflega áminningu og svona föðurlegt tiltal en það hefði samt verið mjög strangt að mínu mati. Hefði ég mætt fullur til vinnu hefði ég verið sendur heim og boðið að fara í afvötnun. Ég tel mig hafa komið vel fram við alla sem ég hef umgengist í fyrirtækinu, aldrei sagt styggðaryrði við nokkurn mann og er reyndar nokkuð viss um að aldrei hefur maður verið rekinn frá fyrirtæki á Íslandi fyrir minni sakir en ég.

Ekki gafst ég nú samt alveg upp og fundaði með nýjum forstjóra Fjarðaáls sem tók mér afar vel og gaf sé góðan tíma til að fara yfir málið með mér. Nokkrum vikum síðar kom svo niðurstaðan. Með fundinum hafði skilningur hans á mínum málið aukist en því miður yrði jólasveinaatriðið ekki fyrirgefið. Ekki væri þó alveg útilokað að í framtíðinni yrði kannski hægt að ráða mig aftur. Ha!ha! Ekki þykir mér það nú líklegt enda að verða sextíu og eins árs eftir rúman mánuð. Styttist hraðbyri í það að verða ellilífeyrisþegi og eru því hverfandi litlar líkur á því að framtíð mín og Alcoa muni nokkuð tengjast.

Svona áður en ég enda þetta þá langar mig að þakka öllum þeim fjölmörgu samstarfsmönnum sem ég hef umgengist síðustu fjögur árin hjá Alcoa Fjarðaáli. Inn í þessu fyrirtæki er gríðarlega mikið af góðum starfsmönnum sem reyndar eru að mínu mati ekki metnir að verðleikum. Gríðarlega langt bil er í raun á milli yfir- og undirmanna en það verður nú það síðasta sem yfirmenn í þessu fyrirtæki samþykkja. Alltof margir yfirmenn Fjarðaráls taka gagnrýni illa og í alltof mörgum tilvikum þverbrjóta þeir gildi Alcoa.

Fyrir mig hefur þetta samt verið góð viðbót á fjölbreyttan starfsvettvang og á þessum vinnustað hef ég eignast góða vini af báðum kynjum og ýmsum þjóðernum sem ég vonast til að eiga eftir að hitta sem oftast. Vona ég að enginn hafi skaðast af því að vinna undir minni stjórn og það jafnvel blundar í mér sú von að einhverjir hafi jafnvel orðið betri menn af því.

Með baráttukveðju til félaga minni í Fjarðaáli.
Ólafur Hr. Sigurðsson, fyrrverandi leiðtogi í kerskála Alcoa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar