Að loknum kosningum á Austurlandi: Ég er sekur ... karlremba og afturhald

Ég varð fyrir talsverðu áfalli um daginn þegar ég uppgötvaði að ÉG, endurtek ég sjálfur, væri karlremba, afturhaldsseggur, dóni, og sennilega laumu kynþáttaníðingur og kvenhatari í þokkabót. Allt þetta af því mér hafi orðið það á að verða miðaldra og væri að sönnu karlmaður, bæði í grunninn og enn þann dag í dag.

Ég hélt í einfeldni minni að það væri lukka allra karlmanna að fá að verða miðaldra, en það virðist ekki vera samkvæmt ýmsu málsmetandi fólki sem telja menn af mínu sauðahúsi allt til foráttu og þegar mér varð það síðan á að krossa við Miðflokkinn í kosningum þá fyrst átti ég mér ekki viðreisnar von, útskúfaður til eilífðar bölvunar í ríki hinna fordæmdu.

Það mætti halda að ég væri bitur yfir úrslitum kosninganna, og það er alveg hárrétt, ég er mjög bitur og alveg miður mín. Ekki vegna þess að fólk hafi haft aðrar skoðanir en við, það er bara lýðræðislegt og ekkert við það að athuga og í raun byggir lýðræðið á því að fólk geti haft misjafna sýn á málin og geti rökrætt þau. En mér finnst afar ósanngjarnt að ég og aðrir sem unnum af heilindum í aðdraganda þessarra kosninga skyldum endalaust þurfa að svara fyrir fyllerísröfl Gunnars Braga Sveinssonar á bar suður í Reykjavík, og allar þær hugmyndir og hugsjónir sem við hefðum væru einskis virði þess vegna.

Gunnar Bragi og aðrir sem hlut áttu að máli hafa sannarlega fengið að iðrast þessarra gjörða sinna, en ég er ekki viss um að aðrir sem létu fúkyrði og svívirðingar dynja á þeim á samfélagsmiðlum, jafnvel allsgáðir, hafi gert slíkt. Vissulega var fólki misboðið og margir tjáðu sig málefnalega og er það vel, við hina vil ég hinsvegar segja að netið gleymir engu og það verður gaman fyrir barnabörn þessa fólks að lesa svívirðingar forfeðra sinna seinna meir eða þannig.

Okkar nýja sveitarfélag getur orðið fyrirmynd og bjargað bæði landsbyggð og höfuðborg frá þeirri hnignum sem of mikil slagsiða á búsetu landsins getur valdið. Það er alveg ljóst í mínum huga að styrkur hvers þjóðfélags liggur í mannauðnum sem byggir allt landið, og nýtir auðlindir þess í eigin þágu á hverjum stað. Þannig geti þéttbýli og dreifbýli best stutt við hvort annað.

Við þurfum að láta allar raddir heyrast og nýta allan þann kraft sem býr í áhugasömu fólki, og hætta að troða inná það ábyrgð sem það hefur ekki, skoðunum sem það hefur ekki, og virkja alla sameiginlega að borðinu og hætta þessum átakastjórnmálum.

Það er undir okkur komið hvernig til tekst við sköpun þessa nýja sveitarfélags. Ég vona sannarlega og fólk fari að hugsa stórt, að ekkert sé ómögulegt. Við eigum frábært ungt fólk sem hefur alist upp við mun betri aðgang að heiminum í gegnum netmiðla, ferðalög, skiptinám, svo fátt eitt sé nefnt og með því öðlast mun meiri víðsýni á marga hluti en við áttum kost á.

Að lokum vil ég óska öllum bæjarstjórnarmönnum og heimastjórnarfulltrúm til hamingju, og þó ég sé svekktur þá veit ég að í öllum flokkum er gott fólk sem vill láta gott af sér leiða í að gera sveitarfélagið okkar enn betra og skemmtilegra fyrir komandi kynslóðir, og full ástæða til bjartsýni.

Með kærri kveðju,
Sigurður Ragnarsson (Siddi)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.