Breyting á gjaldskrá leikskólagjalda í Fjarðabyggð
Yfirlýsing meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð
Meirihluti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar stendur heils hugar við þær tillögur sem fjölskyldunefnd hefur lagt fram í gjaldskrá leikskóla í sveitarfélaginu. Breytingunum er ætlað að bregðast við þeim áskorunum sem leikskólastarf hefur staðið frammi fyrir á síðustu árum, sérstaklega með tilliti til aukins álags og mönnunarvanda sem, meðal annars, orsakast af breytingum á kjarasamningum. Þessar breytingar snúa meðal annars að styttingu vinnuviku ófaglærðra, fjölgun undirbúningstíma og fjölgun orlofsdaga. Með þessum breytingum er einnig markmiðið að sporna gegn tíðri lokunum á deildum og tryggja að áfram verði byggt upp öflugt leikskólastarf í Fjarðabyggð.
Markmið breytinganna eru skýr:
• Að skapa traustara skipulag og betra starfsumhverfi í leikskólum sveitarfélagsins.
• Að draga úr álagi á starfsfólk og tryggja faglegt starf.
• Að tryggja stöðugleika í mönnun til hagsbóta fyrir börn, foreldra og starfsfólk.
• Að stuðla að vellíðan og velferð barna og starfsfólks.
Afstaða Fjarðalistans – mótmæli og rangfærslur
Við lýsum furðu á afstöðu Fjarðalistans í þessu máli. Fulltrúi Fjarðalistans hefur átt sæti í starfshópi sem vann að breytingum á gjaldskrá leikskóla og tekið þátt í þeirri samstöðu sem ríkt hefur um aðgerðir til að bregðast við álagi í leikskólastarfi. Þær rangfærslur sem fram hafa komið af þeirra hálfu í umræðum eru því ekki aðeins villandi heldur grafa þær undan þeirri vinnu sem unnin hefur verið með breiðri samstöðu í fjölskyldunefnd og bæjarstjórn. Við bendum á að allar tillögur og bókanir í starfshópnum voru gerðar með aðkomu allra flokka, þar með talið Fjarðalistans, áður en málið fór í fjölskyldunefnd. Þessar breytingar eru nauðsynlegar til að bregðast við þeim áskorunum sem leikskólar í Fjarðabyggð og annars staðar á landinu standa frammi fyrir. Því vekur það mikla undrun að fulltrúi Fjarðalistans hafi nýverið snúið afstöðu sinni alfarið við.
Hóflegar gjaldskrárbreytingar og stuðningur við barnafjölskyldur
Meirihlutinn hefur sett sér þá stefnu að gjaldskrárbreytingar verði hóflegar og að sérstakt tillit sé tekið til barnafjölskyldna. Í þeim efnum leggjum við áherslu á eftirfarandi:
• Almenn vistunargjöld fyrir 6 tíma vistun lækka umtalsvert, eða um 30%, til að hvetja til styttri viðveru barna og minnka álag á þau.
• Tekjutengdir afslættir verða hækkaðir verulega og reiknast af dvalargjöldum, það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga. (þetta er breyting frá fyrri gjaldskrá) ásamt því að systkinaafslættir eru áfram innan kerfisins.
• Skráningardagar gefa foreldrum sveigjanleika til að spara gjöld og starfsfólki svigrúm til að nýta styttingu vinnuviku og taka út orlofsdaga sem það á inni.
• Frístundastyrkur barna hækkar úr 10.000 kr. í 18.000 kr., sem er 80% hækkun.
• Álagningarhlutfall fasteignagjalda verður lækkað með hagsmuni barnafjölskyldna í huga.
• Núverandi meirihluti er almennt að leggja til að gjaldskrár hækki um 2,5% í gjaldskrám sem snúa að barnafjölskyldum. Önnur sveitarfélög er almennt með að minnsta kosti 3,5% gjaldskrárhækkanir og á það einnig við um þau framboð sem fulltrúar Fjarðalistans tilheyra.
Við ítrekum að breytingarnar eru gerðar til að tryggja að leikskólar Fjarðabyggðar geti áfram verið öflugir menntastaðir sem stuðla að vellíðan og þroska barna okkar.
Samstaða og ábyrgð – í þágu framtíðarinnar
Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð leggur mikla áherslu á að halda áfram á þeirri braut að styrkja leikskólastarf í sveitarfélaginu, með hagsmuni barna, foreldra og starfsfólks að leiðarljósi. Við hvetjum Fjarðalistann til að taka þátt í uppbyggilegri umræðu um þessi mikilvægu mál, í stað þess að dreifa villandi upplýsingum.
Meirihlutinn stendur með samfélagi Fjarðabyggðar og vinnur í þágu þess með skýr markmið og ábyrgð að leiðarljósi.
Nánar um tillögur að breytingum á gjaldskrá leikskóla
Tillögur að breytingum á gjaldskrám leikskóla Fjarðabyggðar miða að því að skapa betra skipulag og starfsumhverfi á leikskólum sveitarfélagsins. Markmið breytinganna er að stuðla að meiri stöðugleika í leikskólastarfinu og tryggja vellíðan og velferð barna og starfsfólks.
Undanfarin ár hafa breytingar á kjarasamningum haft veruleg áhrif á starfsemi leikskóla um allt land, þar með talið í Fjarðabyggð. Fjölgun orlofsdaga í 30 daga, fjölgun undirbúningstíma leikskólakennara og stytting vinnuviku ófaglærðra starfsmanna í 36 klukkustundir hafa valdið auknu álagi á starfsumhverfi leikskóla. Þetta hefur leitt til mönnunarvanda og óstöðugleika sem m.a. hefur orsakað tímabundnar lokanir á deildum og þjónustuskerðingu, með tilheyrandi tekjutapi fyrir foreldra.
Vinna við breytingar á gjaldskrá leikskólagjalda í Fjarðabyggð hefur staðið yfir frá því í september á þessu ári í starfshópi um breytingar í leikskólamálum. Fulltrúi Fjarðalistans hefur haft þar sæti ásamt leikskólastjórum og embættismönnum sveitarfélagsins. Í allri þeirri vinnu hefur verið samstaða um nauðsyn þess að bregðast við áskorunum í leikskólastarfi Fjarðabyggðar er varðar álag og mönnunarvanda. Mörg sveitarfélög hafa verið í sambærilegum breytingum að undanförnu og var fundað með þeim í þessari vinnu til að fá innsýn í hvernig til hefur tekist. Var meðal annars rætt við Skagafjörð, Ísafjarðarbæ og Hafnarfjörð í þessari vinnu.
Á fundi starfshópsins þann 16. október síðastliðinn var bókað um mikilvægi þess að „búa til ákveðnar reglur um vistunartíma barna til að koma til móts við þætti eins og undirbúning stafsmanna og styttingu vinnuvikunnar. T.d. að hafa 30 tíma gjaldfrjálsa vistun, sem væri sveigjanleg fyrir foreldra. Tímar umfram það yrðu skv. gjaldskrá hærri. Í núverandi kerfi eru skráningardagar alls ekki verðlagðir rétt. Skoða að hafa yngstu börnin að hámarki í 6 tíma vistun. Setja þarf reglur varðandi að tveir yngstu árgangarnir séu að hámarki 6 -7 tíma.“ Að þessari bókun stóðu allir flokkar í bæjarstjórn sem og að afgreiða þá tillögu sem samþykkt var í fjölskyldunefnd þann 28. nóv. síðastliðnum út úr starfshópnum og úr fjölskyldunefnd í samráðsferli.
Um breytingarnar
• Gjaldskráin felur í sér ákveðna kerfisbreytingu sem ætlaðar eru til að svara betur þörfum og áskorunum í leikskólastarfi. Erfitt hefur verið að tryggja kjarasamningsbundin réttindi starfsmanna vegna mönnunarvanda. Helstu áskoranir leikskólanna eru að mæta undirbúningstíma leikskólakennara, orlofstöku starfsmanna (tvær vikur sem eftir eru af orlofstíma starfsmanna) og nú styttingu vinnuvikunnar í 36 klst.
• Opnunartími leikskólanna fer úr 9 klst. niður í 8,5 klst. Opnun allra leikskólanna verður nú samræmd og verður frá 07:45 - 16:15.
• Almennt vistunargjald fyrir 6 klst. vistun lækkar umtalsvert eða um 30% á mánuði. Markmiðið er að hvetja fjölskyldur til að stytta viðveru barna og minnka þannig álagið á þau.
• Viðbótar vistunargjald verður hækkað. Tímabilið frá kl. 07:45 – 08:00 kostar 10.000kr. á mánuði en tímabilið frá 16:00 – 16:15 kostar 5.000kr.
• Skráningardagar verða 20 talsins á árinu og munu kosta 5.000kr per. hvern skráningardag. Þetta eru dagar þar sem ekki er gert ráð fyrir að börn mæti í leikskólann nema foreldrar skrái þau sérstaklega. Markmiðið með skráningardögum er að gefa foreldrum tækifæri til að spara leikskólagjöld ef þeir geta haft börnin heima og til að starfsmenn geti í meira mæli nýtt styttingu vinnuvikunnar þessa daga eða notað orlofsdaga sína. Skráningardagar hafa verið við lýði en hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Ein tillagan var að hafa lokunardaga í stað ákveðinna skráningardaga en meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks taldi að það myndi koma sér illa fyrir fjölskyldur og því varð þessi leið fyrir valinu.
• Tekjuviðmiðið verður tvískipt og veitir 50% afslátt af dvalargjöldum (það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga). - Tekjuviðmið einstaklinga verða á bilinu 0 – 7.800.000kr miða við meðaltekjur á 12 mánaða tímabili. - Tekjuviðmið sambúðarfólks verður á bilinu 0 – 11.800.000kr miða við meðaltekjur á 12 mánaða tímabili.
Afslættir reiknast af dvalargjöldum, það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga. (þetta er breyting frá fyrri gjaldskrá) Veittur er 50 % afsláttur fyrir annað barn. Ekkert er greitt fyrir þriðja barn. Greiða ber fullt gjald fyrir það barn sem er í lengstri gjaldskyldri vistun.
Leikskólastigið er fyrsta skólastigið og gegnir lykilhlutverki í menntun barna í gegnum leik. Þetta er afar mikilvægt tímabil í þroskaferli þeirra, og það er forgangsatriði að tryggja að umgjörðin um leikskólastarfið sé traust og fagleg. Með þessum breytingum erum við að vinna að því að leikskólar Fjarðabyggðar séu áfram öflugir menntastaðir sem stuðla að jákvæðri upplifun og þroska barna.
Samanburður á leikskólagjöldum sveitarfélaga Þess ber að geta að fá sveitarfélög bjóða upp á lengri vistun en 8 tíma og fáir foreldrar nýta sér 8,5 tíma vistun. Þá eru einnig dæmi um það að sveitarfélög bjóða ekki upp á 8 tíma vistun fyrir yngstu börnin og þá er óþarft að taka það fram að sum sveitarfélög hafa ekki möguleika á því að bjóða upp á leikskólapláss fyrir öll börn og má benda á langa biðlista Reykjavíkurborgar sem dæmi. Langflest börn í Fjarðabyggð eru í 8 tíma vistun.
Rangfærslur Fjarðalistans
Ítrekað hefur fulltrúi Fjarðalistans lýst því yfir að nauðsynlegt sé að bregðast við þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir í leikskólamálum. Síðastliðinn mánudag var afgreiðslu málsins frestað sökum þess að nefndarfulltrúi listans vildi fá aukin gögn. Aldrei hefur fulltrúi listans lýst sig andsnúin þessum áformum fyrr en í atkvæðagreiðslu.
Núverandi meirihluti er almennt að leggja til að gjaldskrár hækki um 2,5% í gjaldskrám sem snúa að barnafjölskyldum. Önnur sveitarfélög er almennt með að minnsta kosti 3,5% gjaldskrárhækkanir og á það einnig við um þau framboð sem fulltrúar Fjarðalistans tilheyra.
Í núverandi fjárhagsáætlunarvinnu er sérstaklega verið að horfa til barnafjölskyldna með hóflegum gjaldskrárbreytingum sem almennt eru lægri en hjá öðrum sveitarfélögum. Þá er verið að leggja til hækkun á frístundastyrk barna úr 10.000 kr. í 18.000 kr. sem er 80% hækkun sem gagnast barnafjölskyldum. Einnig er til afgreiðslu tillaga að lækkun á álagningarhlutfalli fasteignagjalda.