Einkennileg sjónarhorn á Fjarðarheiðargöng
Þá er farið að hlýna aftur og sólin að skín skært. Í bjartsýniskasti um að Fjarðarheiðin myndi ekki lokast aftur á þessu vori, skipti ég um dekkin á mínum eðalvagni.Það er alveg magnað hvað veðurfarið hefur góð áhrif á sálartetrið, þegar tekur að hlýna og birta eftir langan og erfiðan vetur. Sama þó allskonar hörmungar dynji á úr fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, um stríð í Evrópu og borgarastyrjaldir í Afríku, flóð og veðurfarshamfarir. Tala nú ekki um verðbólgu og húsnæðisskort.
Fjarðarheiðargöng árum saman verið næstu göng
En það sem urgar taugarnar í mér hvað mest þessa daganna og mörgum okkar sem talað höfum fyrir jarðgöngum til að leysa samgönguvanda okkar Seyðfirðinga, er það hvernig sumum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum tekst að taka upp aftur og aftur einkennileg sjónarhorn á það sem þegar hefur verið ákveðið í þeim málum eftir mikla yfirlegu og rannsóknarvinnu.
Sjálf hef ég tekið þátt í því ferli sem ákvörðun um svo stórar framkvæmdir krefst, á Alþingi, í bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar og stjórn SSA. Það þarf enginn að gera ráð fyrir að ekki hafi farið fram mikil grundvallarumræða á þessum stjórnsýslustigum um hvaða skref skyldi taka til að leysa samgönguvanda Seyðfirðinga.
Það sýnir sig m.a. í samgöngu- og jarðgangaáætlunum, fjárveitingum, ályktunum bæjar- og sveitarstjórna og ályktunum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Samstaða hefur náðst um Fjarðarheiðargöng sem næsta jarðgangakost á eftir Norðfjarðargöngum hér á Austurlandi og Dýrafjarðargöngum fyrir vestan. Þetta kemur fram í samgönguáætlun allt frá 2011 og einnig kom skýrt fram í ályktunum SSA frá sama tíma að Fjarðarheiðargöng væru þau jarðgöng sem fulltrúar sveitarstjórna lögðu áherslu á, einmitt til að leysa samgönguvanda Seyðfirðinga.
Skýrslan staðfesti gangaleiðina
Því er ekki að neita að okkur bæjarfulltrúum á Seyðisfirði fannst það vera að bera í bakkafullan lækinn, þegar þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra með bréfi dags. 21. september 2017 skipaði verkefnishóp um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng. Göngin ættu að hafa það hlutverk að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og á Austurlandi öllu.
Hópurinn var þannig skipaður, auk undirritaðrar: Hreinn Haraldsson vegamálastjóri var formaður, Adolf Guðmundsson lögfræðingur, Jóna Árný Þórðardóttir löggiltur endurskoðandi, Snorri Björn Sigurðsson forstöðumaður hjá Byggðastofnun. Með hópnum störfuðu fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Sigurbergur Björnsson og Friðfinnur Skaftason. Ritari hópsins var Valtýr Þórisson forstöðumaður áætlana hjá Vegagerðinni.
Það var því ljóst að þarna fór hópur fólks sem hafði sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum sem nýttust vel í þeirri vinnu sem ætlast var til að hópurinn skilaði af sér. Auk þess voru ráðnir aðrir sérfræðingar, m.a. var KPMG falið að stýra gerð sviðsmynda um samfélagsleg áhrif ólíkra valkosta jarðgangagerðar til Seyðisfjarðar. Sviðsmyndavinnan fól meðal annars í sér viðtöl við hagaðila, greiningu og samantekt greininga. Þá var Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fenginn til að meta veðurfarsáhrif og ofanflóðahættu við hugsanlega gangamunna.
Eftir vinnu allra þessara sérfræðinga var ágætri skýrslu skilað í júní 2019. Og viti menn, enn þá var niðurstaðan að leysa skyldi samgönguvanda Seyðfirðinga með göngum undir Fjarðarheiði. Síðar skyldi ráðast í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og þaðan yfir í Fannardal.
Nú skyldi maður ætla að upplýstir fjölmiðlamenn gætu jafnvel kynnt sér efni sérfræðingaskýrslna, ef þeir hafa efasemdir um að sveitarstjórnarfólk og aðrir misvitrir stjórnmálamenn séu með annarleg sjónarmið þegar ákvarðanir eru teknar. Nei, það er ekki svo. Ekki einu sinni hefur verið vitnað í ofannefnda skýrslu, nema til að gera það tortryggilegt að tveir úr verkefnishópnum áttu lögheimili á Seyðisfirði. Ekki var vísað í lögheimili annarra eða faglegar niðurstöður sérfræðinga.
Í gang með göngin
Svo því sé svo haldið til haga þá eru Fjarðarheiðargöng á samgönguáætlun. Þau eru fullrannsökuð og tilbúin til útboðs í haust. Samgönguráðherra bíður eftir vinnu verkefnastofu vegna fjármögnunar. Engin önnur göng eru fullrannsökuð eða tilbúin til útboðs, svo ef menn hafa ekki þann ásetning að fresta öllum jarðagangaframkvæmdum í mörg ár, þá er ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa við Fjarðarheiðargöng. „Í gang með göngin“ eins og Margrét Guðjónsdóttir hefur verið óþreytandi að minna okkur á.
En þar sem vorið er komið og sólin skín, þá ætla ég að hætta að láta óupplýsta umræðu fara í taugarnar á mér. Maður má vona að fjölmiðlun fari að verða ábyrgari, en hvað veit ég.
Fyrirsagnir eru Austurfréttar