Enn um Seyðisfjarðargöng
Ég átti nýverið samræðu við Einar Þorvarðarson, fyrrverandi umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Austurlandi. Hann vildi að ég leitaði fylgis á Seyðisfirði við Fjarðaleiðina, veggöng um Mjóafjörð til Norðfjarðar í stað Fjarðarheiðarganga. Tengja Seyðisfjörð þannig miðkjarnanum. Ákveða síðar hvaða gangaleið verður valin við tengingu fjarða og Héraðs. Ekkert fylgi er til við þessa hugmynd á Seyðisfirði. Þekki það, þarf ekki að gá.Hér telja allir að nú eigi loksins að standa við það marggefna fyrirheit að tengja Seyðisfjörð við Hérað með veggöngum. Seyðfirðingar telja sig hafa yfirlýst samþykki annarra Austfirðinga um að loksins sé komið að Seyðisfirði, þjóðveginum frá Evrópu.
Ég tel þó sáralitlar líkur á að sprengd Fjarðarheiðargöng séu í sjónmáli. Mjög dýr göng og krafa ríkisins um að helmingur kostnaðar við verkið innheimtist af verktaka með veggjöldum notenda útilokar tilboð. Það er fáránaleg forsenda. Því fer víðs fjarri að hægt sé að innheimta með veggjaldi 20 milljarða af Seyðfirðingum og gestum þeirra á næstu 40 árum að viðbættum vöxtum og innheimtukostnaði. Ég sé heldur ekki að gert sé ráð fyrir kostnaði við Fjarðarheiðargöng í fjárlögum. Hönnun er nú greidd og sérfræðingar búnir að fá sinn bita af verkefninu. Sjálf gerð ganganna tæki stærstan hluta af áætluðu fjárfestingafé til vegagerðar á Íslandi í mörg ár.
Ég er því sannfærður um að senn verði tilkynnt um seinkun verkefnisins af fjárhagsástæðum, enginn sé reiðubúinn að taka verkið að sér og innheimta helming kostnaðar með veggjöldum.
Ég tel þetta því rétta tímann til að bjóða fram fráviks kost sem væri ríkisvaldinu þóknanlegri, veitir mun víðtækari lausn og efnahagslegan ávinning, kost sem leysir vel mál Seyðfirðinga.
Ég er sammála Einari um að göng strandleiðina væru samgöngubylting fyrir Seyðfirðinga. En ef göng milli Mjóafjarðar og Héraðs eru ekki með frá upphafi þá fær sú hugmynd ekkert fylgi á Seyðisfirði. Allir ættu hins vegar að geta glaðir sætt sig við gangaleið sem uppfyllir markmið beggja kostanna, þ.e. að bora fyrst frá Seyðisfirði til Móafjarðar og þaðan í botn Eyvindarárdals á Héraði. Þá er komið út á sléttunni áður en lagt er á Fagradal. Þaðan er mjög snjólétt inn á Egilsstaði. Vegleið milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða lengist reyndar um nokkra km. en styttist verulega milli Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar. Þegar þessum áfanga er náð þá er stutt veggangaleið milli Mjóafjarðar og Norðfjarðarganga. Allt er þá leyst fyrir alla og allir ættu að vera ánægðir, allra mest Seyðfirðingar. Mjóafjarðargöng væru 5,5 km. og 9,5 km en Fjarðarheiðargöng væru 13,5 km. löng. Það er samt óvíst hvor kosturinn væri dýrari því mjög löng göng krefjast meira öryggis.
Auk þess er akstur um löng göng verulegt andlegt álag. Að dreifa því á tvenn styttri göng er mikill kostur. Ef öll þessi göng væru boruð og Seyðfirðingar gætu valið um Mjóafjarðar- eða Fjarðarheiðargöng þá tel ég að langflestir myndu fara um Mjóafjörð og minnka þannig andlega álagið.
Það verður líka að hafa í huga hver ávinningurinn af göngum er. Þetta eru nefnilega mjög dýrar framkvæmdir. Fjarðarheiði er í raun frábær aðkoma að byggðarlaginu í 9 mánuði á ári, í miklum metum hjá ferðamönnum og flestum bæjarbúum. Því til staðfestingar var veittur stór styrkur á þessu ári til að gera útsýnisstað á heiðinni. Aðeins í 3 mánuði er vegurinn torfær eða ófær vegna veðurs. Það er sá tími sem flestir Seyðfirðingar myndu frekar nota þessi 13,5 km. löngu göng. Það er ekki mikil notkun því þá mánuði er minnst umferð í fjórðungnum. Fæstir munu í annan tíma aka göngin með engum tímasparnaði. Ef innheimta á svo helming kostnaðar með veggjöldum þurfa þau að vera nánast óborganleg. Jafnvel þó öllum væri skipað að fara í gegnum göngin og borga veggjald þá þyrfti það að vera fáránlega hátt og torvelda verulega viðskipti út fyrir byggðarlagið. Það er heldur enginn félagslegur ávinningur af göngum undir Fjarðarheiði. Jafn langt er í sjúkrahús, iðnskólinn áfram utan seilingar, samstarf í fiskiðnaði jafn erfitt, álverið og atvinnusvæði miðkjarna fjórðungsins jafn fjarri. Og eini miðbær Austurlands, Seyðisfjörður, áfram úti í horni. Stórsamfélagið Austurland nánast afskrifað.
Mjóafjarðargöng eru líka mun betri kostur sem láglendis tenging Héraðs og Fjarða. Vegfarendur frá Héraði velja þá göngin í vondum veðrum í stað Fagradals. Mjóafjarðarleiðin er líka miklu styttri tenging Héraðs og Fjarða en að fara krók til Seyðisfjarðar. Þá munar sáralitlu hvort farið er um Fagradal eða Mjóafjarðargöng frá Egilsstöðum í álverið Reyðarfirði og styttingin milli Neskaupstaðar og Héraðs er veruleg. (Auk þess verður þá jafn langt frá Neskaupsstað og Seyðisfirði til Reyðarfjarðar!)
Verði Mjóafjarðarleiðin valin verður stærstur hluti Austurlands einn kjarni þar sem búseta setur litlar skorður varðandi menntun, þjónustu, vinnu og frístundir. Ég hvet því hér með alla Seyðfirðinga til að fallast á þá sátt að Mjóafjarðarleið verði valin við láglendis tengingu Seyðisfjarðar og Héraðs, enda verði þá strax hafist handa. Það er engin spurning að þetta er besta gangaleiðin fyrir fjórðunginn og hún leysir algerlega samgönguvanda Seyðfirðinga.