Leikskólamál í Fjarðabyggð og rangfærslur meirihlutans
Leikskólinn er grunnstoð í samfélaginu okkar. Ekki aðeins menntastofnun heldur einnig lykilþáttur í velferð barnafjölskyldna, jafnrétti kynjanna og samfélags- og atvinnuþátttöku foreldra. Þess vegna er óásættanlegt að boðuð sé allt að 66% hækkun gjalda fyrir leikskólaþjónustu af hálfu meirihlutans í Fjarðabyggð.
Mönnunarvandi og álag í leikskólastarfi eru vaxandi áskoranir, ekki bara í Fjarðabyggð heldur um land allt og nauðsynlegt að bæta starfsumhverfi leikskólanna. Fjarðalistinn hefur frá upphafi stutt aðgerðir sem miða að því að bæta umhverfi barna og starfsfólks á leikskólum. Lausnir við þessum vanda verða að leggja áherslu á jafnvægi milli fjárhagslegra lausna og félagslegra markmiða í leikskólamálum og taka mið af öllum sem eiga í hlut.
Gjaldskrárbreytingarnar sem nú hafa verið boðaðar fela í sér miklar auknar álögur á fjölskyldur sem nýta fulla vistun í leikskólum Fjarðabyggðar. Þó að við fögnum vissum þáttum í breytingunum, eins og tekjutengingum og lækkun gjalda fyrir styttri vistun, snúa áhyggjur okkar að því að fjölskyldur sem treysta á lengri vistun en 6 tíma í leikskóla, vegna vinnu verði fyrir töluverðu fjárhagslegu álagi.
Auknar álögur á barnafjölskyldur í Fjarðabyggð, allt að 46% og 66% hækkun
Meirihlutinn hefur gert sitt besta til að afvegaleiða umræðuna og forðast að ræða hækkun gjaldskrár en dæmi um hana má sjá hér að neðan. Fjölskylda með eitt barn í 8,5 tíma vistun
• Með 20 skráningardaga: 780 þúsund á ári (66% hækkun)
• Með 10 skráningardaga: 730 þúsund á ári (56% hækkun)
• Með 0 skráningardaga: 620 þúsund á ári (45% hækkun)
Eigi þessi fjölskylda tvö börn í leikskóla þá hækka gjöldin í allt að 1.180.000 í stað 710 þúsund. Aukning um næstum 500 þúsund krónur á ári. Fjölskylda með 8 tíma vistun
• Með 20 skráningardaga: 620 þúsund á ári (46% hækkun)
• Með 10 skráningardaga: 570 þúsund á ári (34% hækkun)
• Með 0 skráningardaga: 520 þúsund á ári (22% hækkun)
Það sjá það allir sem vilja sjá að þetta er einfaldlega of mikil hækkun sem meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eru að boða á meginþorra barnafjölskyldna í Fjarðabyggð og tilraunir þeirra til að afvegaleiða umræðuna breyta engu þar um. Afstaða Fjarðalistans hefur allan tímann legið fyrir og hefur fulltrúi hans ítrekað varað við að þessar hækkanir séu of miklar, bæði í umfjöllun starfshóps og fjölskyldunefndar og því undarlegt að sú afstaða komi meirihlutanum á óvart. Í því samhengi má t.a.m. benda á að gjaldskráin fékk umfjöllun á þremur mismunandi fundum fjölskyldunefndar vegna athugasemda Fjarðalistans og að tillaga fulltrúans um að vinna breytingar á leikskólamálum í breiðari sátt var felld af meirihlutanum.
Afvegaleiðing umræðunnar í boði meirihlutans í Fjarðabyggð
Öll umræða um breytingar á leikskólamálum af hálfu Fjarðalistans hafa verið uppbyggilegar og að öðru sé haldið fram af meirihlutanum er til marks um tilraunir þeirra til að afvegaleiða umræðuna. Allar upplýsingar og fullyrðingar um breytingar á leikskólamálum í Fjarðabyggð hafa verið unnar upp úr þeirri gjaldskrá sem nú þegar hefur verið samþykkt og öllum staðhæfingum um rangfærslur er hér vísað á bug.
Hætt er við að með þessum breytingum skapist ójöfnuður þar sem sumum fjölskyldum er gert erfiðara með að nýta leikskólaþjónustu en öðrum. Að sama skapi gefur það auga leið að foreldrar myndu með glöðu geði þiggja meiri tíma með börnum sínum en á sama tíma er það alveg ljóst að fæstir geta lifað á tekjum sem fást með 6 klukkustunda vinnutíma á dag. Sú umræða er hluti af mun stærra samhengi sem ekki einungis sveitarfélög geta stýrt, heldur þarf aðkomu stjórnvalda, stéttarfélaga og atvinnulífs.
Sýn Fjarðalistans í leikskólamálum
Við í Fjarðalistanum höfum verið skýr með það að við teljum að allar veigamiklar breytingar á leikskólastarfi eigi að vera unnar í nánu samráði við foreldra og starfsfólk. Þegar slíkt samráð skortir skapast hætta á að ákvarðanir sem eiga að bæta þjónustuna leiði til neikvæðra afleiðinga fyrir fjölskyldur.
Það er ekki hægt að líta á leikskólamál án þess að ræða jafnrétti kynjanna. Leikskólaþjónusta er grunnforsenda þess að foreldrar, sérstaklega mæður, geti tekið virkan þátt í atvinnulífi á jafnréttisgrundvelli. Þess vegna er nauðsynlegt að gjaldskrárbreytingar og aðgerðir í leikskólastarfi stuðli að því að leikskólarnir séu áfram aðgengilegir öllum, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.
Leikskólamál eru réttlætismál og við í Fjarðalistanum munum halda áfram að standa vörð um rétt barna og fjölskyldna í Fjarðabyggð og viljum tryggja að leikskólastarf verði áfram faglegt og að allar fjölskyldur hafi raunhæfan og sanngjarnan aðgang að þjónustunni.
Höfundar eru aðal- og varabæjarfulltrúar Fjarðalistans. Mynd frá leikskólanum Kærabæ á Fáskrúðsfirði. Mynd Fjarðabyggð