Hjörtur fær verðlaunin greidd: Ánægja að meirihluti nefndarinnar hafði rétt fyrir sér!

sannleiksnefnd 23082014 0047 webMeirihluti sannleiksnefndar sem skipuð var til að meta hvort Hjörtur E. Kjerúlf hefði í byrjun árs náð myndskeiði af Lagarfljótsorminum komst í dag að þeirri niðurstöðu að svo væri. Ljósmynd Sigurðar Aðalsteinssonar var ekki talin sýna orminn.

„Mér var tilkynnt niðurstaða nefndarinnar og vil segja að það er mér ánægja að staðfesta að meirihluti nefndarinnar hafði rétt fyrir sér," sagði Hjörtur Kjerúlf skömmu áður en niðurstaðan var formlega kynnt.

Áætlað er að um átta milljón sinnum hafi verið horft á myndband Hjartar á netinu en það tók hann tók út um eldhúsgluggann heima hjá sér á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal að morgni dags í febrúar 2012.

Árið 1997 auglýsti þáverandi bæjarstjórn Austur-Héraðs að hver sá sem næði mynd, myndbandi eða annarri slíkri sönnun af orminum skyldi hljóta hálfa milljón króna í verðlaunafé. Hjörtur óskaði eftir því að fá upphæðina og það sama gerði Sigurður Aðalsteinsson sem kvaðst hafa náð ljósmynd af orminum sumarið 2012.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs brást við með að skipa þrettán manna sannleiksnefnd til að meta myndirnar og hittist hún loks í dag til að kveða upp úrskurð sinn.

„Ég er löngu búinn að missa sjónar á hvort skipan nefndarinnar er grín eða alvara en við fengum það verkefni að taka afstöðu og klára verkefnið," sagði Stefán Bogi Sveinsson, formaður nefndarinnar sem bætti því við að þrettán hefðu verið skipaðir í nefndina þar sem ekki voru taldar ástæður til að nefndarmenn væru færri en jólasveinarnir.

Hvetja til frekari rannsókna á orminum

Haldið var af stað með nefndarmenn eftir hádegi í dag í vettvangsferð en stoppað var fyrir neðan Hafursá á Völlum og skyggnst út á fljótið áður en haldið var áfram inn í Hrafnkelsstaði til að yfirheyra Hjört.

Hann tók á móti nefndarmönnum og sýndi þeim hvaðan hann hefði séð orminn og hvar skepnan hefði svamlað í fljótinu.

Eftir heimsóknina hélt nefndin í félagsheimilið Iðavelli þar sem formlegur fundur var haldinn. Fyrst var tilvist ormsins rædd almennt og deildu nefndarmenn meðal annars eigin sýnum af orminum.

Í bókun sem nefndin sendi frá sér til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs segir að eftir að hafa farið yfir fjölda frásagna áreiðanlegra vitna sé það samdóma álit hennar að í fljótinu sé að finna skepnu eða veru sem ekki hafi tekist að finna með aðferðum vísindanna. Hvatt er til þess að tilvist ormsins verði rannsökuð frekar og safnað um hann heimildum.

Næst tók nefndin fyrir mynd Sigurðar Aðalsteinssonar og greiddi um hana atkvæði þar sem ellefu töldu hana ekki sýna orminn, einn taldi hana sýna orminn og einn atkvæðaseðill var auður.

„Ormurinn er til!"

Þegar röðin var komin að myndskeiði Hjartar skiluðu tveir nefndarmenn auðu, fjórir töldu það ekki sýna orminn en meirihluti, sjö talsins, að þar væri ormurinn á ferð. „Ormurinn er til!" sagði Stefán Bogi þegar hann las upp niðurstöðu nefndarinnar.

Hjörtur það mikinn heiður að taka á móti viðurkenningum í kvöld en peningarnir væru ekki aðalatriðið.

„Þetta er búinn að vera mjög ánægjulegur dagur í dag og að fá að taka á móti nefndinni. Ég verð að segja að þessi 500.000 kall eru smámunir miðað við að fá allt þetta fallega og skemmtilega fólk í heimsókn."

Þá veitti Þjónustusamfélagið á Fljótsdalshéraði Hirti 50.000 króna verðlaun fyrir að hafa markaðssett og vakið athygli á orminum og landssvæðinu.


sannleiksnefnd 23082014 0145 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.