Jens Garðar: Eigum við sem búum úti á landi ekki að mótmæla listamannalaunum?
Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, efast um að þeir sem skrifað hafa undir áskorun um að lögum um veiðigjald verði ekki breytt viti undir hvað þeir hafi skrifað. Breytingin sem gera eigi á gjaldinu eigi að verja minni fiskvinnslur.„32 þúsund manns búnir að skrifa undir og mótmæla veiðileyfagjöldunum. Hverju er fólk að mótmæla? Að fleiri bolfiskvinnslur verði ekki gjaldþrota vegna of hárra gjalda og hundruð sjómanna og fiskvinnslufólks muni ekki missa vinnuna?“ spyr Jens Garðar í Facebook-færslu í dag.
„Finnst fólki of lágt gjald að það er 540.000 krónur á íbúa í Vestmannaeyjum og 430.000 í Fjarðabyggð? Spurning hvort við sem búum útá landi förum ekki að mótmæla listamannalaunum uppá 600 miljónir krórna á ári. Hvað ætli Páli Óskari fyndist um það að eitthvað lið útá landi hefði skoðanir á menningarmálum?“
Líður einhverjum betur efn litlar vinnslur og útgerðir leggja upp laupana?
Í athugasemdum segist Jens Garðar ekki hafa neitt á móti Páli Óskari. Hann hafi hins vegar tjáð sig um veiðigjaldið. Jens Garðar kveðst aðeins hafa bent á að þeir sem hæst hefðu um málið væru ekki endilega þeir sem vissu mest um málið.
Jens telur einnig óljóst hvað sé farið fram á með kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu. Allir séu orðnir sammála um greiðslu auðlindagjalds.
„Spurningin er hvort gjöldin eiga að vera það há að litlar og millistórar útgerðir þola ekki gjaldið eða hvort gjaldið á að endurspegla greiðslugetu greinarinnar. Þess vegna skil ég ekki þetta "upphlaup" og undirskriftir. Kannski að einhverjum líði betur ef litlar vinnslur og útgerðir leggi upp laupana og þeir stóru verði færri og stærri.....ekki ég.“
Veiðigjaldið hækkar á Eskju
Jens Garðar stýrir einnig fyrirtækinu Fiskimið sem selur allt mjöl og lýsi frá Eskju á Eskifirði auk þess að selja fyrir fleiri útgerðir. Í skýrslu sem Deloitte tók saman í fyrravor er Eskja nefnd sem dæmi um fyrirtæki sem ekki myndi standa undir þeim hugmyndum sem þá voru uppi um hækkun veiðigjalds.
Á vefnum veidigjald.com, sem haldið er úti af nemendum við Háskólann á Akureyri, kemur fram að þær breytingar á veiðileyfagjaldinu sem kynntar hafa verið Alþingi leiði til þess að veiðigjald hækkar hjá uppsjávarfyrirtækjum. Það þýði hækkun hjá þremur fyrirtækjum: um 11% hjá Síldarvinnslunni, um 20% Ísfélagi Vestmannaeyja og um 23% hjá Eskju.
Þar er gert ráð fyrir að Eskja þurfi að greiða um 600 milljónir króna í veiðigjald en átti að greiða 490 milljónir. Í útreikningum Deloitte var gert ráð fyrri að veiðigjald fyrirtækisins yrði 800 milljónir króna.
„Við erum mjög ósáttir við það og finnst þetta koma í bakið á okkur. Uppsjávargreinin er mjög fjárfestingafrek og við höfum verið í mikilli uppbyggingu á Eskifirði, rafvætt verksmiðjuna, endurbætt mengunarvarnir og starfsmannaaðstöðu,“ sagði Páll Snorrason, framkvæmdastjóri Eskju, í samtali við Morgunblaðið.