Dæmd fyrir meiðyrði gegn Agli Einarssyni: Sólarhring tók að safna fyrir sektinni

gillzTæpan sólarhring tók að safna rúmum 900.000 krónum sem Ingibjörg Lilja Hafliðadóttir var í vikunni dæmd til að greiða Agli Einarssyni (Gillzenegger) í miskabætur og málskostnað fyrir ærumeiðandi ummæli. Ingibjörg kveðst þakklát öllum þeim sem sýndu henni stuðning í málinu.

Ingibjörg Lilja, tvítug stúlka frá Egilsstöðum var í vikunni dæmd í héraðsdómi Austurlands til að greiða Agli 900.000 í miskabætur og málskostnað og 30.000 króna sekt í ríkissjóð fyrir ærumeiðandi ummæli um Egil og þar með brot á almennum hegningarlögum.

Guðný Rós Vilhjálmsdóttir, vinkona Ingibjargar sem í desember kærði Egil fyrir nauðgun, stofnaði hóp á Facebook í gær til að safna fyrir greiðslunni. Takmarkinu var náð 22 tímum eftir stofnun hópsins sem yfir eitt þúsund manns eru skráðir í.

„Ég er klökk og get varla trúað tilfinningum mínum akkúrat núna,“ skrifaði Ingibjörg Lilja á vegg hópsins í kvöld. „Ég er svo ólýsanlega þakklát fólki fyrir að hafa sýnt mér stuðning og fólki sem þekki mér ekki neitt en hefur sýnt samstöðu með mér í þessu máli.

Ég hef talið mig svo heppna að eiga vinina sem ég á og fjölskylduna sem ég hef en mig hefði ekki grunað að ég væri svo heppin að eiga stuðnings- og baráttuvini þarna úti sem væru tilbúnir í þennan slag með mér.“

Vildi milljón í miskabætur

Guðný Rós kærði Egil fyrri nauðgun í árslok 2011 en málið var látið niðurfalla eftir rannsókn lögreglu þar sem ákæra þótti ekki líkleg til að leiða til sakfellu. Egill ræddi málið í viðtali við tímaritið Monitor í nóvember í fyrra og í kjölfarið var stofnaður Facebook-hópur þar sem birtingu viðtalsins var mótmælt. Í hópnum sagði hún Egil hafa „nauðgað“ og kallaði hann „nauðgara“

Viku eftir ummælin var Ingibjörgu sent bréf frá lögfræðingi Egils þar sem henni var gefinn sólarhrings frestur til að draga ummælin opinberlega til baka, biðjast afsökunar og greiða miskabætur. Við því varð Ingibjörg ekki og höfðaði Egill dómsmál í kjölfarið. Hann krafði Ingibjörgu um eina milljón króna í miskabætur.

Egill hélt því fram að þar sem málið hefði verið látið niður falla hefðu ummæli Ingibjargar fallið gegn betri vitund. Hann krafðist viðurkenningar á að ummælin væru „séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda“.

Trúði frásögn vinkonunnar

Ingibjörg hélt því meðal annars fram í málsvörn sinni að ummælunum hefði verið beint gegn Gillz, sköpunarverki Egils. Æra stefnandans hefði því ekki getað meiðst. Hún sagðist einnig leggja trúnað á orð náinnar vinkonu sinnar. Þótt saksóknari teldi gögn málsins ekki líklegt til sakfellingar þýddi það ekki að frásögn vinkonunnar væri ósönn. Því væri ekki um aðdróttun gegn betri vitund að ræða. Hún hefði rétt til að tala máli vinkonu sinnar sem Egill hefði viðhaft rangar staðhæfingar um.

Enn fremur benti Ingibjörg á störf Egils í fjölmiðlum sem hann hefði nýtt sér til að hefja umræðu um málið og lýsa yfir sakleysi sínu. Fyrir vikið bæri hann minni æruvernd.

Ummælin út fyrir mörk tjáningarfrelsis

Dómurinn hafnaði málsvörn Ingibjargar um að gildisdóm hefði verið að ræða af hennar hálfu heldur „afdráttarlausa og fyrirvaralausa“ staðhæfingu um að Egill væri nauðgari. Í augum almennings væri það eitt svívirðilegasta brot sem hægt væri að fremja og staðhæfingar þar um ærumeiðandi.

Fyrir lá að málið var fellt niður og Ingibjörg gat ekki talist í góðri trú hvað sem liði hennar sakfellingu. Dómurinn taldi að Ingibjörg gæti ekki borið fyrir sig hefðarrétt um orðhefnd þar sem hún gat ekki bent á ummæli í viðtalinu eða þeim fréttatilkynningum, sem hún lagði fram fyrir dómi, sem væru óviðeigandi um vinkonu hennar.

Þar sem ummælin voru sett fram í tilefni lögreglurannsóknar gegn Agli Einarssyni taldi dómurinn ljóst að þau beindust gegn honum en ekki Gillz. Í ljósi þessa voru ummælin dæmd „úr hófi fram og út fyrir mörk tjáningarfrelsis“ Ingibjargar.

Ingibjörg var dæmd til að greiða Agli 100.000 krónur í miskabætur. Dómurinn taldi ummæli alvarleg en dómurinn rétti að nokkru hlut Egils auk þess sem þau hefðu verið ein í hafsjó annarra og óljóst hversu mikla útbreiðslu þau hefðu fengið. Af þeim orsökum þótti heldur ekki að dæma Ingibjörgu til að kosta birtingu dómsins með auglýsingu í dagblaði.

Í Facebook-færslunni í kvöld lýsir Ingibjörg því yfir að hún hafi „aldrei efast“ um frásögn Guðnýjar það sé „ekkert sem myndi breyta því.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.