Aukinn kraftur færist í ljósleiðaratengingar

Fjarskiptafyrirtækið Míla hefur sett aukinn kraft í lagningu ljósleiðara á landsbyggðinni. Framkvæmdir eru framundan á Seyðisfiðri, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, í Fellabæ og Neskaupstað á þessu ári.

Ljósleiðaratenging hefur gengið ágætlega í dreifbýli síðustu ár með stuðningi ríkisins og í stærri bæjum hefur markaðurinn virkað. Meðalstór byggðalög hafa hins vegar setið eftir. Nú virðist vera að færast aukinn kraftur í vinnuna þar.

„Við vitum að það er mikilvægt fyrir þessa kjarna að vera með góð fjarskipti. Fólk getur núna valið sér búsetu og tekið vinnuna með sér,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, fráfarandi formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar en ráðið fékk fulltrúa frá Mílu á fund í febrúar. Þar var farið yfir áætlanir fyrirtækisins.

Tæplega 2.400 heimili án ljósleiðara


Samkvæmt svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, á Alþingi nýverið voru tæplega 2.400 austfirsk heimili án ljósleiðarasambands í byrjun árs 2023.

Árið 2021 fengu 267 heimili á Austurlandi slíkar tengingar en 692 árið 2022. Fyrra árið byggir nær eingöngu á ljósleiðaratengingum á Egilsstöðum, hið seinna komust heimili í sveitum Fljótsdalshéraðs og á Reyðarfirði í samband. Tengingar hafa haldið áfram af krafti á Egilsstöðum auk þess sem hreyfing er í Neskaupstað, á Fáskrúðsfirði og Vopnafirði.

En annars staðar hafa hlutirnir gengið hægt. Á svæðinu sunnan Fáskrúðsfjarðar bættist heimili bæst í hópinn í þessum tíma, 20 á Eskifirði og átta á Seyðisfirði.

Ísland ljósleiðaravætt fyrir árið 2030


Samkvæmt upplýsingum frá Mílu er áætlað að ljúka ljósleiðaratengingu Íslands fyrir árið 2030, vonandi töluvert fyrr. Ýmislegt getur haft áhrif á framkvæmdahraðann og því eru framkvæmdirnar aðeins tímasettar ár fram í tímann. Franska fjárfestingafélagið Ardian keypti Mílu árið 2021 og samkvæmt svari Mílu leggja nýir eigendur áherslu á að uppbygging innviða gangi hratt og að aukið fjármagn hafi verið sett í framkvæmdir.

Míla hefur síðan í haust staðið í ljósleiðaralagningu í Fellabæ og er þeim framkvæmdum að ljúka. Á næstunni eru áætlaðar framkvæmdir í Neskaupstað, á Seyðisfirði og Eskifirði. Fleiri heimili á þessum stöðum bætast við í sumar auk þess sem þá fara af stað framkvæmdir á Fáskrúðsfirði.

Nánari upplýsingar um framkvæmdirnar eru á vef Mílu en þær eru uppfærðar þar eftir því sem svigrúm myndast til viðbóta.

Helstu ljósleiðaraframkvæmdir Mílu á Austurlandi árið 2024:

- Upptalningin er ekki tæmandi

2. ársfjórðungur
Fellabær: Dalbrún.
Seyðisfjörður: Árbakki, Árstígur, Fjarðarbakki, Garðarsvegur, Hamrabakki, Hlíðarvegur, Múlavegur, Suðurgata, Vesturvegur.
Eskifjörður: Bleiksárhlíð, Bogahlíð, Brekkubarð, Dalbarð, Fífubarð, Strandgata, Tungustígur.
Neskaupstaður: Bakkabakki, Breiðablik Gauksmýri, Hrafnsmýri, Mýrargata, Nesgata, Starmýri, Valsmýri.

3. ársfjórðungur
Fellabær: Háafell, Heimatún, Helgafell, Hlaðir, Kauptún, Lágafell, Lagarbraut, Lagarfell, Miðfell, Skipalækur, Smiðjusel, Sunnufell, Ullartangi.
Fáskrúðsfjörður: Hlíðargata, Skólavegur.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.