Ekki hefur verið hægt að lenda sjúkraflugvélum í mánuð
„Búið er að reyna að laga þetta eftir að verkinu lauk en mistökin eru þau að ganga ekki frá þessu almennilega strax,“ segir Guðmundur H. Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, en flugbrautin í Neskaupstað hefur verið ófær í mánuð vegna þess hve illa var staðið að verklokum yfirstaðinna framkvæmda á vegum Landnets.
Verktakar á vegum Landsnets grófu fyrir mánuði skurð þvert yfir flugbrautina í Neskaupstað þegar unnið var að eflingu flutningsgetu rafmagns frá Eskifjarðarlínunni yfir í aðveitustöðina í Naustahvamm í Norðfirði.
„Grafa þurfti skurð yfir brautina og það er svosem í lagi, en þrátt fyrir uppfyllingar sígur hann sífellt – auk þess sem óvarlega hefur verið unnið á brautinni, á henni er hjólför eftir bæði bíla og beltagröfur. Allt þetta veldur því að ekki er hægt að lenda á henni, en vélarnar eru á um 150 kílómetra hraða þegar þær lenda og það gefur auga leið að það gengur ekki á ósléttri braut,“ segir Guðmundur.
Lengir ferðalagið um einn og hálfan klukkutíma
Eins og veðrið hefur verið að undanförnu, bjart og stillt, hefur ekkert hamlað því að flugvélar gætu lent á brautinni nema ástand hennar.
Guðmundur segir að sjúkraflutnigar hafi aukist mikið að undanförnu, sem jafnan eru fjögur í mánuði. Helsta ástæða þessa er sú að alltaf er verið að stytta þann tíma sem sjúklingar liggja á sjúkrahúsum eftir aðgerðir sem gerðar eru í Reykjavík og frekar reynt að koma þeim í heimabyggð sem fyrst á viðkomandi sjúkrastofnanir.
„Þetta merkir það að lenda þarf með sjúklinga á Egilsstöðum og flytja þá svo hingað niðureftir í sjúkrabíl, en það lengir ferðalagið um einn og hálfan tíma fyrir sjúklinga í allskonar ástandi, auk þess sem Oddskarðið er ekki alltaf gott yfirferðar. Við erum ekki sáttir við hvernig af þessu hefur verið staðið en mistökin eru þau að ganga ekki almennilega frá þessu í upphafi og þá bera ekki virðingu fyrir því að flugbrautin sé í fullri notkun.“
Völlurinn er ekki hæfur til lendinga eftir framkvæmdirnar.