Fræðslumál í Fjarðabyggð: Hvað stendur í gögnunum?

Austurfrétt hefur með vísan í upplýsingalög, fengið aðgang að gögnum starfshópa um fræðslumál sem lágu fyrir bæjarstjórn þegar hún tók ákvörðun um breytingar á skólum sveitarfélagsins í lok febrúar. Austurfrétt hefur einnig undir höndum samantekt skólastjórnenda við bæjaryfirvöld vegna málsins. Hér er farið yfir það helsta sem fram kemur í þessum gögnum.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti, á aukafundi þann 27. febrúar, breytingar á fræðslumálum sveitarfélagsins. Í mjög grófum dráttum fela þær í sér að sameina skóla sveitarfélagsins eftir skólastigum með sjálfstæðum starfsstöðvum. Sameiningin gengur styttra í Stöðvarfjarðar- og Breiðdalsskóla enda þar orðnar talsverðar breytingar síðustu ár.

Störf aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra sérkennslu verða lögð niður. Í stað koma verkefnastjórar og tengilliðir farsælar. Við skólaþjónustu Fjarðabyggðar bætast við iðjuþjálfi, náms- og starfsráðgjafi og þroskaþjálfi. Þá verða ráðnir fagstjórar fyrir annars vegar leikskóla, hins vegar grunnskóla, sem styðja eiga við skólastjórana.

Aðdragandi að skipan starfshópsins


Ákveðið var á fundi fræðslunefndar þann 10. október í fyrra að stofna starfshóp sem skoðaði rekstur og skipulag innan leik-, grunn- og tónlistarskóla Fjarðabyggðar. Fyrir fundinum lá minnisblað síðan í september þegar byrjað var að hreyfa við málinu þar sem segir að miðað við kröfur sem gerðar séu til menntakerfisins í dag sé ljóst að endurskipuleggja þurfi skólakerfi Fjarðabyggðar í heild. Vísað er til þess að allt frá árinu 2011 hafi fræðslumálin verið í skoðun og nokkrar skýrslur verið skrifaðar.

Þar eru viðraðar hugmyndir um stofnun starfshóps um breytingar á skólastigunum þremur. Skólastjórar, kennarar af skólastigunum og sérkennarar eru meðal þeirra sem til stendur að fá í hópinn. Þá segir enn fremur að markmið endurskipulagningarinnar sé að bæta faglegt starf og auka samlegð til að minnka rekstrar- og stjórnunarkostnað.

Skýrslur um sameiningu og hagræðingu í skólum Fjarðabyggðar


Samkvæmt tímalínu skólastjórnendanna voru þeir boðaðir á fund í lok vikunnar þar sem rakið var að til væru þrjár skýrslur með tillögum um breytingar á skólamálum. Lykilskýrslan er frá árinu 2015, unnin af Ingvari Sigurgeirssyni hjá Skólastofunni. Hún fjallar um um mat á tillögum um skipan skólamála í Fjarðabyggð. Þar var lagt af stað til að leita leiða til að nýta betur fjármagn til fræðslumála. Fræðslumál hafa í gegnum tíðina verði langstærsti einstaki útgjaldaliður sveitasjóðs en þau voru tæp 50% útgjalda A-hluta árið 2023, samkvæmt ársreikningi sem lagður var fram í síðustu viku.

Í skýrslunni koma fram margar þeirra hugmynda sem nú hafa verið samþykktar, svo sem ráða verkefnastjóra í stað aðstoðarskólastjóra og sameina skólana þvert á skólastig. Þannig verði starfsfólk ekki ráðið á einstakar starfsstöðvar heldur skólasamfélagi Fjarðabyggðar.

Eins viðraði Ingvar þar hugmyndir um sameiginlegan skóla fyrir Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík eða að sveitarfélagið tæki til sín þjónustu Skólaskrifstofu Austurlands, eins og raunin hefur orðið. Þá var Breiðdalshreppur enn sjálfstæður. Skýrslan var gerð ári eftir að bæjarstjórn dró til baka áform um að flytja eldri nemendur Stöðvarfjarðarskóla yfir til Fáskrúðsfjarðar.

Breiða samstöðu þarf til að breytingar gangi upp


En Ingvar bendir líka á að ekki sé sama hvernig staðið sé að breytingum. „Eindregið er mælt með því að ekki sé rasað um ráð fram við skólabreytingar. Áríðandi er að undirbúa allar aðgerðir vel, meðal annars með samræðum þar sem hagsmunaaðilar hafa svigrúm til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Breið samstaða og jákvæð viðhorf ráða úrslitum um hvernig til tekst.“

Þessi fyrsti punktur í samantektarkafla skýrslunnar er lykilinn að stöðunni í dag. Fagfélög skólastjóra og kennara auk foreldrafélaga og ráða hafa gagnrýnt að ekki hafi verið staðið rétt að samráðinu. Kjörnir fulltrúar í Fjarðabyggð telja á móti að þeir hafi viðhaft nægt samráð, einkum miðað við umfang breytinganna og að ekki hafi komið fram teljandi athugasemdir á fundum sem haldnir voru fyrr en að ákvörðunin var orðin opinber.

Skólamál rædd á íbúafundum


Önnur skýrsla frá vormánuðum 2015 lá einnig til grundvallar, frá KPMG um fjárhagstöðu og framtíð Fjarðabyggðar. Þar segir að sameining skólanna sé bæði lykilatriði í framþróun í skólamálum sveitarfélagsins og táknræn aðgerð fyrir sameiningu þess. Þar er lagt til að byrja á grunnskólunum og áætlað að það sparaði 13 milljónir á ári. Bæði ráðgjafar KPMG og Ingvar höfðu við vinnu sína setið íbúafundi í byggðakjörnum Fjarðabyggðar í janúar 2015 og rætt við lykilstarfsfólk. Fulltrúar Fjarðabyggðar hafa í samtölum Austurfréttar vísað til íbúafunda frá því nú í vetur sem hluta vinnunnar við breytinganna á skólunum.

Þriðja skýrslan er frá vorinu 2012, frá vinnuhópi um skipan fræðslumála í kjölfar hagræðingarkröfu bæjarstjórnar. Sá hópur horfði einkum á sameiningar á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði en þar má líka finna hugmyndir um að breyta starfi aðstoðarskólastjóra í deildarstjóra. Fundað var með skólastjórum og foreldrum um ýmsar hugmyndir, sem strax þá lögðust gegn sameiningum milli staðanna tveggja vegna aksturs og ótta við að grunnskólinn á Stöðvarfirði legðist af. Hyggilegast var talið að sameina leik- og grunnskóla á hvorum stað fyrir sig. Það var gert á Stöðvarfirði í kjölfarið.

Tókst ekki að fá kennara í hópinn


Í minnisblaði skólastjórnendanna nú kemur fram að óskað hafi verið eftir tilnefningu úr þeirra röðum í starfshópinn. Út úr því má líka lesa að á ýmsu gengið við að finna fulltrúa, til dæmis hafi þurft að huga að dreifingu milli byggða en einnig að lítill áhugi hafi verið frá kennurum eða starfsfólks. Óskýrt hafi verið hvernig greiða ætti fyrir vinnuna. Lendingin varð að greitt var fyrir akstur en ekki vinnu því hún átti að fara fram á dagvinnutíma.

Sveitarfélagið ákvað því að kalla aðeins skólastjórnendur inn í hópinn. Þeir urðu: Valdimar Másson frá Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar-, Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur, Steinþór Snær Þrastarson frá Breiðdalsvíkur- og Stöðvarfjarðarskóla og Sigurlaug Björk Birgisdóttur af leikskólanum Eyrarvöllum í Neskaupstað.

Birgir Jónsson, formaður fræðslunefndar og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, var síðar skipaður formaður hópsins. Úr minnihluta kom Sigurjón Rúnarsson, varamaður í fræðslunefnd. Með hópnum störfuðu sviðsstjóri fjölskyldusviðs og stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu. Fleiri starfsmenn sátu fundi eða aðrir kjörnir fulltrúar í forföllum.

Byrja átti á yfirbyggingu og stjórnun


Erindisbréf fyrir hópinn er dagsett 17. október en var kynnt í fræðslunefnd og samþykkt tveimur vikum síðar. Samkvæmt erindisbréfinu er hópnum ætlað að rýna hvernig breyta megi rekstri leik-, grunn- og tónlistarskóla Fjarðabyggðar til að auka „rekstrarlega samlegð og bæta faglegt starf.“ Hópnum var einnig ætlað að breyta úthlutunarlíkani kennslutíma, rýna hlutverk og fyrirkomulag skólaþjónustu og horfa til breytinga á félagsmiðstöðvum og íþróttastarfi.

Þetta átti að gerast í tveimur áföngum, sá fyrri átti að fjalla um ytra umhverfi, það er yfirbyggingu og stjórnun en sá seinni um innra umhverfi: kennslu, skólaþjónustu og fleira. Starfshópurinn átti að skila af sér tveimur sviðsmyndum um yfirbygginguna fyrir apríl 2024 með mati á kostnaði og faglegum ávinningi. Gert var ráð fyrir að funda vikulega og skila fundargerðum til bæjarráðs og fræðslunefndar.

Eftir ákvörðun bæjarstjórnar í lok febrúar sendu fulltrúar skólastjórnenda í starfshópnum frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gera athugasemdir við vinnubrögð hópsins. Þeir segjast ekki hafa fengið erindisbréf, fundir ekki verið boðaðir með dagskrá og ekki skrifaðar fundargerðir. Skýringar Fjarðarbyggðarmegin frá er að nokkuð ljóst hafi legið fyrir frá fundi til fundar hvað ætti að ræða.

Það helsta úr minnispunktum frá fundum starfshópsins


Varðandi fundargerðirnar er túlkunarmunur þar á. Starfsfólk Fjarðabyggðar tók niður minnispunkta á fundunum. Þau gögn voru aldrei undirrituð og teljast því ekki formlegar fundargerðir. Fulltrúar úr hópnum segjast aldrei hafa séð þessa punkta. Austurfrétt fékk aðgang að þeim með vísan til upplýsingalaga.

Fyrsti fundurinn var haldinn 15. nóvember. Á honum er meðal annars af hálfu fulltrúa sveitarfélagsins reifað að skólakerfið sé dýrara þar en hjá sambærilegum sveitarfélögum. Þá er rætt um að fá upplýsingar um sameiningar annars staðar, svo sem Fjallabyggð og Snæfellsbæ, þar sem grunnskólar hafi verið sameinaðir í einn með sjálfsstæðum starfsstöðvum.

Hugmyndir um að breyta hlutverki aðstoðarskólastjóra eða fella þá út koma strax fram. Þær eru sagðar kom frá skólastjórnendum sem opna á að í stað komi annars konar millistjórnendur, svo sem rekstrarstjórar sem geti tekið af þeim verkefnaþunga. Rætt er um starfsmannaveltu og hvernig kostnaður við frítöku eða veikindi sé mismikill milli stofnana.

Þar er bókað að erindisbréf hópsins sé útskýrt en jafnframt að skil á vinnunni eigi að vera í apríl og um sé að ræða tveggja ára verkefni þar sem ytra umhverfi verði mótað í vetur en innra umhverfi næsta vetur.

Rætt um sameiningar


Rætt er um lóðréttar sem láréttar sameiningar. Með lóðréttum sameiningum er átt við sameiningum þvert á skólastig, til dæmis þegar leikskólar og grunnskólar eru sameinaðir undir einn stjórnanda. Láréttar sameiningar eru þegar þær verða þvert á skólastig. Strax á fyrsta fundi er tóninn sleginn í þá átt. Þar er reyndar strax varað við áhrifum breytinga, að þær skili ekki þeim fjárhagslega ávinningi sem vænst er eftir svo sem vegna kostnaðar við akstur. Fulltrúar skólastjórnenda minna á hvað hafa þurfi í huga faglega við breytingarnar.

Á öðrum fundi, viku síðar, er farið yfir gögn sem beðið var um á fyrsta fundinum. Mögulegar útfærslur eru ræddar áfram. Ljóst er að ekki er augljóst hvers konar lárétt sameining þykir koma best út. Á þriðja fundinum þann 29. nóvember er meðal annars talað um að hvorki fáist fjárhagsleg né fagleg hagræðing af lóðréttri sameiningu. Tækifæri sé hins vegar til að auka hlutfall fagfólks með láréttum sameiningum. Áfram virðist velt upp ýmsum möguleikum á útfærslum sem og bæði tækifærum og hættum við breytingar.

Bókað er að næsta áformaða fundi hafi verið frestað. Starfshópurinn fundaði ekki aftur í þessari mynd. Þann 12. desember var staða vinnunnar kynnt fyrir bæjarráði af formanni og starfsfólki hópsins. Þar hafi verið ákveðið að færa vinnuna á næsta stig með aukinni pólitískri aðkomu að stefnumótuninni.

Möguleikarnir greindir


Í glærukynningu frá bæjarráðsfundinum er dregin upp tímalína starfshópsins. Þar segir að í nóvember og desember eigi að setja upp sviðsmyndir breytinga og byrja að vinna kostnaðargreiningu. Í janúar og febrúar verði 1-2 sviðsmyndir frekar metnar og greindar auk þess sem hagaðilar verði kallaðir til samtals. Ekki er skilgreint hverjir það verði. Í mars og apríl verði sviðsmyndirnar lagðar fyrir bæjarráð og bæjarstjórn. Í apríl og maí verði byrjað að undirbúa framfylgd breytinga fyrir haustið og snúa sér að næsta áfanga.

Fjórar sviðsmyndir, með SVÓT-greiningu, það er styrkleikum, veikleikum, tækifæri og greiningu. Sú fyrsta er lárétt sameining, það er sameining eftir skólastigum með áframhaldandi starfsstöðvum.

Önnur sviðsmynd er lóðrétt sameining, það er skólarnir innan hvers kjarna verði sameinaðir. Þriðja sviðsmyndin er lárétt sameining milli kjarna, þar sem Neskaupstaður og Eskifjörður verði saman, Reyðarfjörður og Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður og Breiðdalur.

Fjórða sviðsmyndin, séu breytingar á borð að við að loka sérstökum mötuneytum á Fáskrúðsfirði, hrærigrautur af umræðu á fundum, taka út aðstoðarskólastjóra í Fjarðabyggð, einn skólastjóri verði yfir öllum en síðan skólastjóri eða fagstjóri á hverjum stað, sameina skólana á Fáskrúðsfirði. Virðist hafa verið minnst greind. Þar þegar byrjað að leggja upp skrefin í þætti 2.

Miðað við tímalínu skólastjórnenda virðast í byrjun þessa árs hafa vaknað spurningar meðal fulltrúa í starfshópnum um að þeir væru ekki sáttir við hvernig vinnan væri túlkuð. Þótt ýmsu hefði verið velt upp á fundum sé ekki þar með sagt að þeir hafi litið á það sem endanlegar niðurstöður. Í áðurnefndri yfirlýsingu þeirra frá í janúar segir að fyrir starfshópinn hafi verið lagðar mótaðar hugmyndir og athugasemdar þeirra virtar að vettugi. Í þeirra huga hafi málin enn verið á umræðu stigi en ekki komnar fram neinar mótaðar tillögur. Í tímalínunni skólastjórnenda segir að á skólastjórafundum í janúar og febrúar hafi takmarkaðar upplýsingar fengist um vinnu hópsins og á þeim seinni þeir látið bóka áhyggjur af starfsöryggi sínu.

Starfshópur með kjörnum fulltrúum tekur við


Í millitíðinni, um miðjan janúar, var skipað upp á nýtt í starfshópinn. Birgir var einn eftir en inn komu fjórir bæjarfulltrúar. Uppfært erindisbréf var samþykkt mánuði fyrr. Markmið hópsins, tímasetningar og verkefni eru óbreytt.

Sá hópur fundaði fimm sinnum frá 24. janúar fram til 20. febrúar. Á þeim fundum eru sviðmyndirnar úr glærukynningunni mótaðar betur, aðallega sú fyrsta sem er strax talin álitlegust. Sviðmyndir 3 og 4 eru nánast strax felldar út, sviðsmynd 3 vegna mikils aksturs og sviðsmynd 4 virðist aldrei hafa verið raunverulega inni í neinni mynd. Þar er meðal annars rætt um fjölgun í skólaþjónustu, hvernig verkefni deildarstjóra sérkennslu verði leyst og mögulegar útgáfur af skipuritum.

Þann 16. febrúar lagði starfshópurinn fram áfangaskýrslu um störf sín. Þar er búið að útfæra sviðsmynd eitt um láréttu sameininguna og gerð grein fyrir verksviði stjórnenda, bæði þeirra sem verði á hverri starfsstöð en einnig fagstjóra skólasviðanna. Þeim er ætlað að aðstoða skólastjórana á hverjum stað, svo sem við fræðslu til starfsfólks og fjármál. Þar er einnig að finna grófa útreikninga á breytingu á kostnaði, annars vegar hvað sparist við breytingarnar, hins vegar hvað þær lausnir sem komi í staðinn kosti. Áætlaður sparnaður er talinn yfir 60 milljónum á ári.

Fundað með skólastjórnendum


Eftir síðasta fundinn var boðað til funda með skólastjórnendum eftir skólastigum. Í minnisblaði frá fundunum er farið yfir helstu athugasemdir sem þar komu fram. Hjá tónlistarskólunum er talað um útfærslu starfs aðstoðarskólastjórans. Þar segir að upplifun starfshópsins sé að nokkur sátt hafi verið um tillögurnar í lok fundar og allir skólastjórar lýst sig tilbúna til samstarfs.

Frá fundi leikskólastjóranna er bókað að þeir lýsi áhyggjum af auknu álagi sem breytingarnar hafi í för með sér, meðal annars þar sem aðstoðarskólastjórar leysi af á deildum þegar þess þurfi. Mat starfshópsins er að nokkur sátt hafi verið um tillögurnar en vinna þurfi að lausnum á álagi og forfallakennslu.

Grunnskólastjórarnir lýstu einnig áhyggjum af auknu álagi þar sem þeir stæðu einir eftir með alla ábyrgð eftir að hafa til þessa notið stuðnings aðstoðarskólastjóra. Enn er það upplifun hópsins að nokkur sátt sé um breytingarnar en útfæra þurfi stöðu verkefnastjóra á annan hátt en áður hafði verið áformað. Bókað er að einn grunnskólastjóri hafi farið af fundinum eftir að hafa lýst óánægju með að fá ekki að ræða áformin við aðstoðarskólastjóra sinn og deildarstjóra sérkennslu.

Hröð atburðarás í lok febrúar


Minnisblaðið er dagsett föstudaginn 23. febrúar. Í því eru punktar um hvernig hægt sé að bregðast við áhyggjum skólastjórnendanna. Bæjarstjórnarfundurinn, þar sem ákvörðunin var tekin um breytingar á fræðslustofunum Fjarðabyggðar, var haldinn seinni part þriðjudagsins 27. febrúar. Bæði þar og síðar hafa kjörnir fulltrúar borið því við að í kjölfar fundanna með skólastjórnendum hafi verið gerðar breytingar á tillögunum til að bregðast við athugasemdum.

Skólastjórnendur hafa á móti gagnrýnt að þeir hafi ekki fengið gögnin afhent fyrir fundinn. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar úr þeirra röðum síðustu vikur má ráða að þeir hafi talið málið enn vera á umræðustigi og ákvörðunina verið tekna hraðar en þeir áttu von á.

Tímalínu skólastjóranna lýkur í lok mars. Þá er málið komið í hendur Kennarasambands Íslands og það búið að óska eftir áliti menntamálaráðuneytisins. Síðan hefur lítið gerst í málinu. Sem fyrr segir hafa fagfélög kennara, bæði á landsvísu og á Austurlandi, og ýmis hagsmunasamtök foreldra og kennara í Fjarðabyggð ályktað gegn breytingunum. Um 750 manns, langflestir úr Fjarðabyggð, skrifuðu undir áskorun til bæjarstjórnar um að draga ákvörðun sína til baka. Undirskriftalistinn var afhentur í byrjun mars.

Sem kunnugt er klofnaði meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalistans við atkvæðagreiðsluna þegar annar bæjarfulltrúa Fjarðalistans greiddi atkvæði gegn breytingunum. Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum um miðjan mars. Það hefur ekki valdið neinni stefnubreytingu. Lítil samtöl virðast hafa verið milli deiluaðila undanfarnar vikur heldur gengið á með skeytasendingum og ályktunum.

Beðið eftir ráðuneytinu


Á vissan hátt kom kvörtunin til mennta- og barnamálaráðuneytisins málinu í pattstöðu. Fulltrúar Fjarðabyggðar hafa lýst yfir að þeir bíði eftir niðurstöðu þaðan áður en aðhafst verið frekar í málinu. Andsvörum Fjarðabyggðar var skilað til ráðuneytisins um miðjan mars. Ekki er óþekkt að ráðuneyti taki sér mánuði í slíka vinnu. Óskað hefur verið eftir að ráðuneytið hafi hraðar hendur í málinu vegna mikilvægis þess þannig allri óvissu verið eytt. Í byrjun apríl fengust þær upplýsingar hjá Fjarðabyggð að vonast væri eftir álitinu fljótlega en það liggur ekki enn fyrir.

Í tilkynningu sem Fjarðabyggð sendi frá sér síðasta föstudag er ítrekað að á ákvörðunin sé bæjarstjórnar einnar og því rangt að draga einstaka starfsmenn inn í umræðuna. Bæjarfulltrúar hafi viljað horfa til framtíðar í takt við þróun og breytingar í samfélaginu og ábyrgðar sveitarfélaganna á málaflokknum. Þar segir að sveitarfélagið vilji nota gagnrýni til að bæta ferlið þannig að lokaniðurstaðan verði öllum til hagsbóta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.