Hitamet ekki staðfest strax
Veðurstofan bíður með að staðfesta hvort hitamet fyrir febrúarmánuð hafi verið sett á Eyjabökkum í gær. Hlýtt loft hefur verið yfir Austfjörðum síðustu daga.
„Það þarf að tékka betur á stöðinni, hvort hún sé ekki örugglega í lagi,“ segir Trausti Jónsson um 19,1 stiga hita sem mældist á Eyjabökkum í gær í svari við fyrirspurn Austurfréttar. Einhver tími mun líða áður en metið verður staðfest.
Mælirinn á Eyjabökkum er í 650 metra hæð yfir sjó og stóð þessi hiti í tvær mínútur. Önnur stöð á Brúðardal, milli Skriðdals og Reyðarfjarðar, sýni 17,8 stiga hita. Febrúarstöðvarmet voru sett allvíða. Í úttekt á bloggsíðu Trausta segir að met hafi verið slegin á 17 stöðvum sem staðið hafa frá því fyrir árið 2000.
Hitinn fór upp í 16 gráður á Seyðisfirði í gær og virðist það dægurmet fyrir 12. febrúar. Rétt er að hafa í huga að dægurmet falla öðru hvoru en erfiðra er að slá mánaðarmet.
Hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í febrúar var 18,3 gráður á Hvammi undir Eyjaföllum 21 dag mánaðarins árið 2005. Þá mældist 18,1 gráðu hiti á Dalatanga 17. Febrúar 1998.
Þótt hlýtt hafi verið á Seyðisfirði í gær hefur mælst þar hærri hiti í febrúar. Það var 8. febrúar 1960. 16,9 gráður mældust á Seyðisfirði þann dag og 17 gráður á Dalatanga. Árin 2006 og 1984 mældist einnig 16 stiga hiti á Seyðisfirði í febrúar.
Spáð er hæglætis veðri fram eftir vikunni austan lands. Hitinn verður þó öllu lægri en í gær, eða um eða rétt ofan við frostmark.