Ríflega 80 milljóna hagnaður hjá Sparisjóði Austurlands
Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Austurlands fyrir skatta og lögbundið framlag til samfélagslegra verkefna á síðasta ári nam 82 milljónum króna. Útlán jukust um hálfan milljarð.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem sjóðurinn sendi frá sér eftir aðalfund á þriðjudag. Hagnaður eftir skatta og 5% lögbundið framlag til samfélagslegra málefna er 60 milljónir króna.
Sparisjóðirnir eru skyldaðir til að veita ákveðnum hluta af hagnaði sínum til samfélagsmála og verður upphæðin í ár 4,1 milljón króna en hún hefur aldrei verið hærri. Ákvæðið var innleitt í lög árið 2012 og síðan hefur sjóðurinn veitt samtals 14 milljónum til samfélagsverkefna á Austurlandi.
Útlán hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár og nam aukningin í fyrra 15% eða 500 milljónum króna.
Heildareignir sjóðsins um síðustu áramót voru 6,2 milljarðar og bókfært eigið fé tæpar 790 milljónir. Það hefur á síðustu fjórum árum aukist um tæpar 190 milljónir.
Fjármálaeftirlitið hefur nýlega lokið við að meta eiginfjárþörf sjóðsins. Eiginfjárhlutfall hans er 23,1% en samkvæmt reglum skal það 18,35%. Verið er að innleiða kröfurnar í áföngum og þegar þær hafa gengið að fullu í gildi 1. janúar 2019 verður krafan 20,85% en eiginfjárhlutfall er í dag um 2% hærra.
Mynd: Kristín Hávarðsdóttir